Verkefnið í höndum Vopnfirðinga frá byrjun

„Ég hef brennandi áhuga á öllu sem viðkemur sögu Vopnafjarðar,“ segir Berghildur Fanney Hauksdóttir, sem fer fyrir hópi fólks á Vopnafirði sem áformar að endurútgefa Vopnfirðingasögu í sumar eða haust.


Fanney segir hugmyndina hafa kviknað fyrir nokkrum árum eftir að hópur fólks sem stundaði fjölvirkjanám á Vopnafirði fór að vinna með söguna. „Það samstarf leiddi til þess að sett var upp varða um Vopnfirðingasögu við Hof, útbúinn bæklingur um söguna, sem og leiðsögn. Flesta úr hópnum langaði að halda áfram með verkefnið og mér fannst það mjög áhugavert og fór því að starfa með þeim,“ segir Fanney.

Úr varð að hópurinn, sem kallar sig Vopnfirðingasöguslóð, gekk inn í Söguslóðir Austurlands, sem þá hafði unnið heilmikið verk í tengslum við Hrafnkels sögu Freysgoða. Verkefni Vopnfirðingasöguslóðar voru hugsuð á svipuðum nótum og þegar Söguslóðir Austurlands byggði upp slóð Hrafnkels sögu Freysgoða. Söguslóðir Austurlands hafa í þrígang fengið styrk frá Uppbyggingarsjóði Austurlands til Vopnfirðingasöguslóðarverkefnisins og síðast núna í febrúar. Hópurinn réð Ásu Sigurðardóttur, íslenskufræðing og kennara, til aðstoðar við að búa til texta á skilti Vopnfirðingasöguslóðar en hún hefur kennt Vopnfirðingasögu í Vopnafjarðarskóla í mörg ár.

„Vopnfirðingasöguslóðarhópurinn hittist í upphafi vikulega, las söguna og bjó til texta á skilti, lagði fram tillögur að myndefni og vísanir í örnefni sem tengjast Vopnfirðingasögu. Útkoman er sex skilti sem verða sett upp á slóðum Vopnfirðingasögu, í Hofsárdal og út við Eyvindarstaði í Vopnafirði en vonir standa til að það verði að veruleika nú í sumar.“

Vinnsla skilta og bókar á lokametrunum
Fanney segir næsta stig verkefnisins vera að endurútgefa Vopnfirðingasögu á svipaðan hátt og gert var með Hrafnkels sögu Freysgoða.

„Ása vinnur með okkur áfram og hefur hún nú sett orðskýringar við texta Vopnfirðingasögu, inngang, hugleiðingar, umfjöllun um rannsóknir á sögunni og fleira áhugavert. Þá er hópurinn að vinna í kortum, ættartölu og fleira efni sem tengist sögunni til að setja í bókina en sagan verður bæði á íslensku og ensku þannig að hún höfði til sem allra flestra. Textavinna er nú á lokametrunum og vonast hópurinn til að geta gefið söguna út á svipuðum tíma og skiltin verða sett upp.“

Texti skiltanna á þremur tungumálum
Verkefnið hefur verið í höndum Vopnfirðinga frá byrjun. „Allir í hópnum eru búsettir á Vopnafirði og flestir starfa í þessu af áhuga fyrir sögunni og að nýta hana sem auðlind fyrir gesti Vopnafjarðar um leið og íbúar fá kost á að njóta hennar betur. Texti skiltanna hefur verið þýddur á þrjú tungumál ásamt íslensku og var það gert af Vopnfirðingum.

Stjórn Söguslóða Austurlands fékk Pétur Behrens til að sjá um myndskreytingar á skiltum og vonandi líka í bókinni, þar sem hann sá um myndskreytingar fyrir útgáfu Hrafnkels sögu. Einnig munum við þurfa að leita út fyrir Vopnafjörð eftir grafískum hönnuði til að setja efnið okkar upp á fallegan og frambærilegan hátt.

Menningarmálanefnd Vopnafjarðar kemur að útgáfu sögunnar með fjárframlagi auk fyrirtækja, stofnana og einstaklinga sem áhuga hafa á að sjá verkefnið verða að veruleika. Verkefnið hefur fengið styrk úr Uppbyggingarsjóði Austurlands og hefur sá styrkur auk annars framlags skipt sköpum fyrir framvindu þess.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.