Verkfall sjómanna hefði vond áhrif á Eskju

Verkfall sjómanna gæti tafið uppbyggingu nýs frystihúss Eskju á Eskifirði. Samninganefndir funda fram eftir degi í von um sættir áður en verkfall hefst klukkan ellefu í kvöld.


„Varðandi verkfall sjómanna þá kemur það einstaklega illa fyrir Eskju því við áætluðum að fara til veiða á norsk íslensku síldinni nú um miðjan nóvember og sækja hráefni til að prufa nýja búnaðinn í landi.

Ljóst er að verkfall setur það í uppnám því það eru tugir aðila sem koma að uppbyggingu uppsjávarhússins þ.e verkaðilar sem eru nú fyrir austan geta ekki klárað sitt verk og snúið sér að öðru fyrr en búið er að prufukeyra,“ segir Páll Snorrason, fjármálastjóri Eskju um áhrif mögulegs verkfalls á fyrirtækið.

Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði segir að vinnslustopp verði vegna hráefnisskorts þegar það sem er til, þorskur og síld, hafi verið klárað. Hoffellið landaði þar 560 tonnum af síld til söltunar. Bæði Sandfellið og Ljósafellið eru á veiðum.

Af öðrum austfirskum skipum á miðum má nefna Gullver og Beiti. Íslenska flotanum verður stefnt í land ef verkfallið skellur á.

Samninganefndir Sjómannasambands Íslands og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) gera í dag lokatilraun til að koma í veg fyrir verkfall. Sátt náðist fyrr í vikunni um fiskverð sem var eitt stærsta ágreiningsefnið. Jens Garðar Helgason, formaður SFS sagðist í hádegisfréttum útvarps bjartsýnn á að samningar náist.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.