Verslunarmannahelgin gekk vel fyrir sig að mati lögreglu
Liðin Verslunarmannahelgi gekk aldeilis ágætlega að mati lögreglunnar á Austurlandi en tvær hátíðir voru í gangi yfir helgina í fjórðungnum.
Þar um að ræða Neistaflug í Neskaupstað og Hagyrðingakvöld á Borgarfirði eystri en báðir viðburðir vel sóttir þó veðurfar væri ekki með besta móti yfir helgina.
Hjalti Bergmar Axelsson, aðalvarðstjóri á Egilsstöðum, er mjög sáttur við hlutina að helginni lokinni enda ekki komið upp nein alvarleg mál að ráði.
„Heilt yfir gekk helgin vel. Fleira fólki fylgja auðvitað aukin verkefni fyrir lögregluna eins og gengur og um þessa helgina voru örfá ölvunarverkefni. Það kom upp eitt vopnalagabrot þar sem ungur maður var með hníf á sér en ógnaði engum og það var skjótafgreitt af okkar hálfu á staðnum. Við stöðvuðum fjölda bifreiða, um 300 alls, til að kanna ástand ökumanna þessa daga en það kom aðeins eitt ölvunarakstursmál sem kom út úr helginni allri. Við erum bara alls kostur ánægðir með hvernig fólk skemmti sér hér yfir helgina.“
Nokkuð var áberandi á samfélagsmiðlum óánægja íbúa og gesta í Neskaupstað með hart eftirlit lögreglu að loknum lokatónleikum Neistaflugs sem fóru fram í Dalahöllinni á endanum þar sem veður var ekki með þeim hætti að hátíðarsvæðið væri heppilegt. Í kjölfarið gekk fólki hægt að komast til síns heima þar sem lögregla setti upp stöðvunarpóst á leið inn í bæinn og stöðvaði nánast hvern bíl. Hjalti kannast við óánægjuna vegna þess.
„Það var settur upp ölvunarpóstur á þessari leið til að kanna ástand ökumanna að tónleikunum loknum. Það var reyndar ekki svo að allir hefðu verið stöðvaðir eins og gefið var í skyn en auðvitað tafði þetta för margra eitthvað. Það er hluti okkar starfs að tékka á ökumönnum og hugsanlega hefur verið einhver óánægja en aðalatriðið er að þarna reyndust allir vera í lagi og miðað við þær upplýsingar sem ég hef þá tóku menn póstinn niður þegar meirihlutinn var kominn í gegn án þess að nokkuð hefði komið upp.“
Troðið var á lokatónleika Neistaflugs sem fóru fram í Dalahöllinni sökum veðurs. Skjáskot Neistaflug