„Verslunin á Reyðarfirði er mikilvægur þáttur í starfsemi Krónunnar“

Bæjarráð Fjarðabyggðar fundaði með framkvæmdastjóra Krónunnar á mánudaginn. Engin áform eru um lokun verslunarinnar, heldur stendur til að efla hana.


Gréta María Grétarsdóttir er framkvæmdastjóri Krónunnar. „Krónan vill sýna samfélagslega ábyrgð og er stolt af því að taka þátt í eflingu sveitarfélaga á landsbyggðinni. Verslun á Reyðarfirði er mikilvægur þáttur í starfsemi Krónunnar og engin áform eru um að breyta fyrirkomulagi verslunarinnar.

Við teljum að lágt vöruverð og gott vöruúrval, sé mikilvægur þáttur í lífsgæðum einstaklinga. Uppröðun verslana okkar byggir á lýðheilsusjónarmiðum og með þau að leiðarljósi staðsetjum við ávexti og grænmeti fremst í verslunum okkar, lágmörkum framsetningu á sykri og erum ekki með sælgæti við afgreiðslukassa svo eitthvað sé nefnt."

Orðrómur um lokum verslunarinnar
Það var bæjarráð sem óskaði eftir fundinum. „Eins og við vitum hafa fyrirtæki verið að leggja niður starfsemi í Fjarðabyggð. Það skapar vissan óróa í samfélaginu og það er ekkert launungarmál að sá orðrómur hefur skapast að Krónan áformaði að loka verslun sinni hér á Reyðafirði. Við kusum samtalið beint við framkvæmdastjóra og erum mjög ánægð með að Gréta María hafi komið hingað til okkar.

Sem betur fer átti þetta ekki við nein rök að styðjast, engin áform eru um að loka versluninni, þvert á móti eru áform um að efla starfsemina ef eitthvað er. Það er mjög mikilvægt fyrir samfélagið að verslunin veiti þjóunstu samkvæmt þörfum þess. Það helst þá líka í hendur að fólk og fyrirtæki á svæðinu versli í heimabyggð þegar hægt er,“ segir Eydís Ásbjörnsdóttir, formaður bæjarráðs.









Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.