Versluninni lokað tveimur mánuðum eftir flutninga

Verslun Bílanausts á Egilsstöðum var ekki opnuð í morgun þar sem rekstur fyrirtækisins hefur verið stöðvaður. Tveir mánuðir eru síðan verslunin opnaði á nýjum stað eftir gagngerar endurbreytingar.

Fyrirtækið hefur rekið verslanir á Egilsstöðum, Akureyri og í Reykjavík en starfsmönnum var tilkynnt um breytingarnar í morgunn.

Í samtali við Vísi sagði stjórnarformaður Bílanaustar að rangt væri að tala um að félagið væri á leið í gjaldþrot en þörf væri á endurskipulagningu. Bílanaust hefur átt í rekstrarvanda um nokkurt skeið og átt í viðræðum við lánadrottna um endurfjármögnun. Þær viðræður strönduðu í gærkvöldi og ákvað viðskiptabanki félagsins að ganga að veðum sínum.

Lokunin vekur meðal annars athygli eystra í ljósi þess að verslun Bílanausts flutti í byrjun nóvember af þeim stað sem hún hafði verið á frá upphafi, við Lyngás, í húsnæði Jötuns. Var opnuð þar svokölluð „búð í búð“ þar sem tvær verslanir voru í eina og sama rýminu.

Breytingarnar báru nokkuð brátt að en viðræður fyrirtækjanna hófust í lok sumars. Opnunarhátíð var þar 9. nóvember, eða fyrir sléttum tveimur mánuðum.

Tveir starfsmenn hafa starfað hjá Bílanaust á Egilsstöðum. Þær upplýsingar fengust hjá stéttarfélagi þeirra, AFLi starfsgreinafélagi, að lokunin kæmi á óvart og væru slæm tíðindi fyrir svæðið. Félagið hefði ekki orðið vart við fjárhagsvandræði fyrirtækisins.

Opið er í verslun Jötuns samkvæmt venju, þrátt fyrir lokun Bílanaustar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar