Versluninni lokað tveimur mánuðum eftir flutninga
Verslun Bílanausts á Egilsstöðum var ekki opnuð í morgun þar sem rekstur fyrirtækisins hefur verið stöðvaður. Tveir mánuðir eru síðan verslunin opnaði á nýjum stað eftir gagngerar endurbreytingar.Fyrirtækið hefur rekið verslanir á Egilsstöðum, Akureyri og í Reykjavík en starfsmönnum var tilkynnt um breytingarnar í morgunn.
Í samtali við Vísi sagði stjórnarformaður Bílanaustar að rangt væri að tala um að félagið væri á leið í gjaldþrot en þörf væri á endurskipulagningu. Bílanaust hefur átt í rekstrarvanda um nokkurt skeið og átt í viðræðum við lánadrottna um endurfjármögnun. Þær viðræður strönduðu í gærkvöldi og ákvað viðskiptabanki félagsins að ganga að veðum sínum.
Lokunin vekur meðal annars athygli eystra í ljósi þess að verslun Bílanausts flutti í byrjun nóvember af þeim stað sem hún hafði verið á frá upphafi, við Lyngás, í húsnæði Jötuns. Var opnuð þar svokölluð „búð í búð“ þar sem tvær verslanir voru í eina og sama rýminu.
Breytingarnar báru nokkuð brátt að en viðræður fyrirtækjanna hófust í lok sumars. Opnunarhátíð var þar 9. nóvember, eða fyrir sléttum tveimur mánuðum.
Tveir starfsmenn hafa starfað hjá Bílanaust á Egilsstöðum. Þær upplýsingar fengust hjá stéttarfélagi þeirra, AFLi starfsgreinafélagi, að lokunin kæmi á óvart og væru slæm tíðindi fyrir svæðið. Félagið hefði ekki orðið vart við fjárhagsvandræði fyrirtækisins.
Opið er í verslun Jötuns samkvæmt venju, þrátt fyrir lokun Bílanaustar.