VG skoðar framboð í Múlaþingi og Fjarðabyggð

Vinstrihreyfingin – grænt framboð skoðar nú möguleikana á að bjóða fram undir eigin nafni í Fjarðabyggð. Þar hefur flokkurinn ekki boðið áður í sveitastjórnarkosningum.

„Staðan er sú að fyrir nokkru var samþykkt á félagsfundi að láta reyna á uppstillingu bæði í Fjarðabyggð og Múlaþingi. Uppstillingarnefnd er að störfum og þar eru málin stödd,“ segir Kristján Ketill Stefánsson sem sæti á í stjórn svæðisfélags VG á Austurlandi og uppstillinganefndinni.

Nánar aðspurðu sagðist hann „hóflega bjartsýnn“ á að flokkurinn næði að fara fram í báðum sveitarfélögunum. Ekkert sé staðfest í þeim efnum. Þegar uppstillinganefnd hefur lokið störfum verður boðað til félagsfundar þar sem nefndin annað hvort leggur fram lista, eða skilar inn umboði sínu hafi henni ekki tekist að manna lista.

VG bauð fram og fékk einn fulltrúa kjörinn þegar fyrsta sveitarstjórn Múlaþings var kjörin haustið 2020.

Svæðisfélag VG var stofnað í febrúar fyrir tveimur árum. Þá runnu saman í eitt öll aðildarfélög flokksins í Fjarðabyggð, Múlaþingi og Fljótsdalshrepp. Búið er að senda könnun á félaga í flokknum og athuga hverja þeir vilji helst sjá á listum í Fjarðabyggð og Múlaþingi. Verið er að vinna úr þeim ábendingum.

Á föstudag verður haldinn aðalfundur svæðisfélagsins. Búist er við að staðan hjá uppstillinganefndinni verði rædd þar.

Félagshyggjufólk hefur frá því Fjarðabyggð varð til boðið fram saman undir merkjum Fjarðalistans. Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur ekki átt neina formlega aðkomu að framboðinu. Einstakir flokksfélagar hafa þó tekið þar sæti sem einstaklingar.

Framboðshópur VG í Múlaþingi 2020.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar