„Við erum þakklát fyrir þessa höfðinglegu gjöf“

Kvenfélagskonur á Reyðarfirði afhentu í dag Heilsugæslunni á Reyðarfirði gjafir að andvirði 500 þúsund krónum. Jólabingó Kvenfélagsins sem er þeirra stærsta fjáröflun fer fram í kvöld.


Kvenfélagið gaf heilsugæslunni nýjan blóðþrýstingsmæli, tvö eyrna- og augnskoðunartæki og fjórar hlustunarpípur.

„Þessi tæki eru nýtt í daglegu starfi heilsugæslunnar og kær viðbót við þau tæki sem þegar eru til staðar og komin til ára sinna,“ segir Guðrún Pétursdóttir, deildarstjóri heilsugæslunnar í Fjarðabyggð.

„Við erum ákafleg þakklát fyrir þessa höfðinglegu gjöf Kvenfélags Reyðarfjarðar og ánægð að þær hafi ákveðið að styrkja okkur á 100 ára afmælinu sínu, en þær höfðu samband við okkur til þess að athuga hvað vantaði helst. Eftir miklar vangaveltur var ákveðið að óska eftir góðum tækjum sem nýtast vel öllum starfsmönnum stöðvarinnar og hjálpa til við dagleg störf.

Styrkir sem þessir eru ómetanlegir fyrir starfsemi heilsugæslunnar, þar sem það er ekki á færi okkar að endurnýja tækjakostinn reglulega. Kvenfélag Reyðarfjarðar hefur í gegnum tíðina verið góður bakhjarl heilsugæslustöðvarinnar og meðal annars gefið „fósturdopler“, blóðtökustól, hluta eyrnasmásjá, ásamt sex öðrum félögum og fyrirtækjum sem gefin var þegar heilsugæslan opnaði við Búðareyri,“segir Guðrún.


„Þurfum að hlaða í hvern vinning“

Jólabingóið, ein aðal fjáröflun Kvenfélags Reyðarfjarðar fer einmitt fram í Grunnskóla Reyðarfjarðar í kvöld.

„Það er sívinsælt og alltaf fullt hús. Við höfum ekki hækkað verðið á bingóspjöldunum í mörg ár, það er bara 800 krónur og ágóðinn rennur allur í góðgerðarmál, eins og allur ávinningur af því sem við gerum,“ segir Ingunn.

Ingunn segir það einstaklega auðsótt mál að fá vinninga hjá fyrirtækjum. „Áður fyrr var þetta „matarbingó“ og aðeins matvara í vinning. Það hefur breyst, það er einhver matvara, gjafabré og fleira. Við fáum svo mikið að við verðum að hlaða í hvern vinning og ekki nóg með það, við höfum tekið út hluti og haft í aukavinninga í nafnabingói fyrir yngri kynslóðina.“

 Kvenfélagið gefur heilusgæslunni2

Kvenfélagið gefur heilsugæslunni1

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.