„Við höfum gríðarleg vannýtt tækifæri“

„Að mínu mati er það mjög aðkallandi fyrir íslenska ferðaþjónustu að lagður verði meiri kraftur í að færa hana frekar í átt að sjálfbærni,“ segir Fáskrúðsfirðingurinn Daði Már Steinsson, en hann hlaut nýlega verðlaun fyrir framúrskarandi lokaverkefni til BS-gráðu í ferðamálafræði við Háskóla Íslands, ásamt samnemanda sínun Grétari Inga Erlendssyni.


Verkefnið var markaðsgreining- og áætlun á fyrirtæki þeirra, Nordic Green Travel ehf. Markmiðið var að kanna hvernig nýta mætti sjálfbæra starfshætti til aðgreiningar á markaðinum. Það eru Samtök ferðaþjónustunnar og Rannsóknamiðstöð ferðamála sem veita verðlaunin árlega.

„Verkefnið var í grunninn markaðsrannsókn- og áætlun fyrir ferðaskrifstofuna, en þegar við höfðum lokið henni að þá ákváðum við að láta slag standa og opna,“ segir Daði Már, en ferðaskrifstofan hefur verið í loftinu í rúmt ár og er í formi bókunarsíðu þar sem ferðamenn geta keypt fjölbreyttar ferðir um landið með aðstoð skrifstofunnar.

Ferðamenn vilja umhverfis- og samfélagsvæna kosti
„Við hjálpum ferðamönnum að ferðast um landið með ábyrgum hætti, með því að setja hag umhverfis og samfélags á oddinn við val á samstarfsaðilum og stuðla þannig að sjálfbærni í ferðaþjónustu á Íslandi.

Niðurstöður markaðsgreiningarinnar leiddu meðal annars í ljós, að þrátt fyrir styrkingu íslensku krónunnar má búast við hagvexti á helstu markaðssvæðum. Hún sýndi einnig að meirihluti erlendra ferðamanna voru líklegir til að velja umhverfis- og samfélagsvæna kosti í ferðamennsku fram yfir aðra. Af þessu drögum við þá ályktun að pláss sé á íslenskum ferðaþjónustumarkaði fyrir fyrirtæki sem hefur sjálfbærni að leiðarljósi og að sjálfbær ferðamennska er raunhæfur kostur í ferðaþjónustu á Íslandi,“ segir Daði Már.

Enn meiri kraft í sjálfbæra ferðaþjónustu
Daði Már segir verðlaunin hafa mikla þýðingu fyrir Nordic Green Travel. „Þetta er frábær viðurkenning og það er alltaf skemmtilegt og uppörvandi að fá verðlaun. Við höfum hér gríðarleg vannýtt tækifæri, en að mínu mati hefur bæði verið brugðist of seint og hægt við þeim vandamálum sem mikil og hröð aukning ferðamanna til landsins hefur leitt af sér.“

Allar ferðir eru kolefnisjafnaðar
Allar ferðir Nordic Green Travel eru kolefnisjafnaðar í samstarfi við Kolvið umhverfissjóð. „Ferðamaðurinn greiðir það sama fyrir ferðina og hann myndi gera annarsstaðar en við kolefnisjöfnum ferðina honum að kostnaðarlausu. Við tökum einnig fram á síðunni hjá okkur hvaða umhverfis- og gæðavottanir viðkomandi ferðaskipuleggjandi hefur. Þannig erum við að auðvelda okkar gestum að taka skrefið í átt að ábyrgari ferðamennsku en við vitum það vel að ferðamennska verður seint 100% sjálfbær eða ábyrg þar sem fólk ferðast hingað með flugvélum eða skipum. Í okkar augum snýst þetta ekki um að verða 100% grænn neytandi á fimm mínútum, heldur getum við öll tekið ákveðin skref í því að verða ábyrgari neytendur sem mun leiða af sér bætta umgengni um umhverfi og samfélögin okkar.“

Ljósmynd: Verðlaunahafar ásamt Guðrúnu Þóru Gunnarsdóttur, forstöðumanni RMF og Helgu Árnadóttur, framkvæmdastjóra SAF.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar