Víða skemmdir á vegum eftir rigningar helgarinnar

Skemmdir urðu á vegum í flestum sveitarfélögum á Austurlandi í miklu hlákuveðri síðasta föstudag. Vegagerðin vinnur að viðgerðum eftir því sem kostur er.

Á vef Vegagerðarinnar má finna yfirlit yfir þær skemmdir sem urðu á vegum í óveðrinu um helgina.

Á Seyðisfjarðarvegi rann úr úr vegköntum á nokkrum stöðum í Lönguhlið og Neðri Staf.

Í Fljótsdal og Fljótsdalshéraði urðu minniháttar skemmdir á nokkrum heimreiðum. Á Múlavegi í Skriðdal grófst vegur í sundur utan við Borg.

Varnargarðar skemmdust við Jóku í Skriðdal. Á Skriðdals- og Breiðdalsvegi grófst vegur í sundur innan við Skriðuvatn og á Breiðdalsheiði rann yfir veg þannig að slitlag skolaðist úr vegi á kafla.

Í Breiðdal og Norðurdal urðu smá skemmdir í vegköntum á þó nokkrum stöðum.

Á Norðfirði fylltust ræsi þannig og rann yfir veg á nokkrum stöðum þannig að smá skemmdir urðu á vegi og ræsaendum. Grænanesvegur fór í sundur á tveimur stöðum.

Hringveginum var lokað milli Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar. Á tíu stöðum í sunnanverðum Fáskrúðsfirði rann yfir veginn þannig að úrrennsli varð úr vegfyllingum og vegköntum auk minni háttar skemmda á slitlagi auk skemmda á ræsaendum. Þá braut Dalsá úr vegfyllingum meðfram veginum á stuttum kafla.

Vegur að Hafranes í Reyðarfirði grófst í sundur. Eins rann úr Helgustaðavegi á nokkrum stöðum.

Lækir fóru upp úr farvegum á nokkrum stöðum í Berufjarðarbotni með tilheyrandi skemmdum. Einnig rann úr veggköntum og við ræsi.

Vegur að Hofi í Álftarfirði grófst sundur ásamt vegi að Hamarseli í Hamarsfirði á tveimur stöðum.

Þrátt fyrir veðurhaminn var eina verkefnið sem skráð var í aðgerðagrunn Landsbjargar þegar björgunarsveitamenn lokuðu Hringveginum.

Mynd: Vegagerðin/Davíð Þór Sigfússon

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar