Vildu skora á staðalímynd áhrifavaldsins
Austfirsku frumkvöðlarnir Ásbjörn Þorsteinsson frá Eskifirði og Auðun Bragi Kjartansson frá Egilsstöðum halda úti síðunni WHO CAN SEE YOU, sem bæði er hönnunarmerki og stökkpallur fyrir áhugasama út í heim samfélagsmiðla.
Ásbjörn og Auðun Bragi eru báðir búsettir í Kaupmannahöfn þar sem Ásbjörn er í námi í samskiptahönnun við Copenhagen School of Design and Technology.
„Merkið WHO CAN SEE YOU var upphaflega stofnað sem fatamerki í apríl 2017. Það átti aðeins að snúast um tvo hluti; flotta hönnun og góða strauma, með sérstaka áherslu á það síðara. Hugmyndin var að stofna samfélag sem samanstóð af góðu fólki af öllum gerðum sem hefðu áhuga á að vera hluti af geggjuðu samfélagi.
Úr því spratt „WHO CAN SEE YOU fjölskyldan“ á Instagram. Hún virkar á þá leið að ef þú birtir mynd af þér í flík frá WHO CAN SEE YOU ertu kominn í fjölskylduna. Við útbúum svo texta í samstarfi við viðkomandi og póstum með myndinni á okkar Instagram síðu. Með þessu vildum við skora á staðalímynd áhrifavaldsins, manneskjuna sem þú sérð á daglega á Instagram, sú sem virðist lifa hinu fullkomna lífi. Um um leið búa til stökkpall sem einblínir á einstaklinginn, hans gildi og tilveru, óháð því hvort hann passi inn í hina týpísku skilgreiningu á áhrifavaldi,“ segir Ásbjörn.
Allir velkomnir í fjölskylduna
Ásbjörn segir viðtökurnar hafa verið góðar. „Þær gáfu okkur byr undir báða vængi og leiddu okkur á þann stað sem við erum á í dag, en gildin standa enn í stað en markmiðin stærri. Við erum fatamerki sem slíkt en ásamt því, samfélagsmiðill. Stefnan er sett á að stækka og styrkja þennan grundvöll sem fjölskyldan er og útvíkka hugsjónina. Við stefnum til dæmis á að gefa út WHO CAN SEE YOU Magazine, sem verður tímarit fjölskyldunnar.
Ef fólk hefur áhuga á því að feta með okkur ótroðnar slóðir, þá er hurðin alltaf opin og við hvetjum fólk til þess að hafa samband í gegnum síðuna okkar. Í raun leitum við af hverju sem er. Flottum myndum, góðum penna, hvaða list sem er, hvort sem það er tónlist, myndlist eða matarlist. Engin hugmynd er verri en önnur.“