Vilja að ferðamenn staldri við og drekki í sig umhverfið

Djúpavogshreppur hlaut nýverið 3,8 milljóna króna styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til eflingar gönguferðamennsku í Djúpavogshreppi.



Erla Dóra Vogler, ferðamálafulltrúi Djúpavogshrepps, segir að sótt hafi verið um styrkinn til þess að efla gönguferðamennsku í hreppnum, bæta aðgengi og öryggi ásamt því að auka upplýsingagjöf um svæðið sem skili sér í aukinni ánægju og upplifun göngufólks.

„Svæðið býður upp á ótrúlega fjölbreytta og fallega náttúru – svartar, rauðar og hvítar fjörur, gróna dali og jafnvel jökla. Sé horft til ferðamanna þá eru gönguferðalangar og náttúruunnendur mjög ofarlega á vinsældalistanum hjá okkur og við viljum gefa því fólki feikna góða ástæðu til að sækja okkur heim, staldra hér við og drekka í sig umhverfið,“ segir Erla Dóra.

 


Gönguferðamennska er „slow“ ferðamennska

Erla Dóra segir verkefnið vera í anda Cittaslow þar sem áhersla er lögð á að bæta aðgengi að náttúru og gera fólki auðveldara að njóta hennar. „Gönguferðamennska er „slow“ ferðamennska, umhverfisvæn og með henni fáum við til okkar þá ferðamenn sem við kjósum okkur, fólk sem staldrar lengur við og gefur sér tíma til að njóta þess sem svæðið hefur upp á að bjóða. Austurland er auðvitað útivistarparadís og við viljum leggja okkar að mörkum til að auðvelda göngufólki að njóta náttúru svæðisins í anda Cittaslow.

Verkefnið er á höndum Djúpavogshrepps en unnið í samstarfi við Ferðafélag Djúpavogs, fuglaáhugafélagið birds.is og staðkunnuga sem dreifðir eru um sveitir Djúpavogshrepps. Erla Dóra segir styrkinn verða nýttan í endurgerð gönguleiðakorts, stikun gönguleiða, uppsetningu merkinga og endurbóta á fræðsluskiltum.

„Þökk sé þessum styrk þá getur Djúpavogshreppur nú haldið áfram að efla sjálfbæra ferðamennsku á svæðinu,“ segir Erla Dóra.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar