Vilja byggja búsetukjarna til að örva fasteignamarkaðinn

Seyðisfjarðarkaupstaður hefur ákveðið að leggja fram rúmlega 30 milljónir króna og lóð til að byggja upp íbúðakjarna fyrir íbúa 55 ára og eldri. Framkvæmdin er unnin í samvinnu við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og er ætlað að koma hreyfingu á húsnæðismarkað í sveitarfélaginu.

Bæjarráð Seyðisfjarðar samþykkti nýverið að leggja til rúmar 33 milljónir króna auk lóðarinnar við Múlaveg 61-63 undir íbúðakjarnann. Saman reiknast framlag bæjarins tæpar 45 milljónir króna og rennur inn í húsnæðissjálfseignastofnun sem á að hafa umsjón með byggingunni.

Framkvæmdin er hluti af aðgerðum félagsmálaráðherra til að örva húsnæðismarkað á landsbyggðinni en Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS), sem kom í stað Íbúðalánasjóðs um síðustu áramót, heldur utan um verkefnið. Í desember 2018 var Seyðisfjörður valið sem eitt af sjö tilraunasveitarfélögum í það.

„Við búum við það hér að fasteignamarkaðurinn er frosinn og erfitt að byggja því munur á byggingakostnaði og söluverði er svo mikill,“ segir Aðalheiður Borgþórsdóttir, bæjarstjóri, um fasteignamarkaðinn á Seyðisfirði.

Sveitarfélagið hefur reynt að örva markaðinn með að fella niður gatnagerðargjöld tímabundið. Þar eru nú tvö einbýlishús í byggingu.

Íbúðir fyrir 55 ára og eldri

Í fyrra var gerð húsnæðiskönnun á Seyðisfirði sem benti til að mest þörf væri á búsetukjarna fyrir 55 ára og eldri. Vonast er til að slíkur kjarni myndi koma hreyfingu á markaðinn. Fyrir liggur frumhönnun og kostnaðaráætlun um slíkan kjarna með átta íbúðum, fjórum fjögurra herbergja, tveimur tveggja herbergja og tveimur þriggja herbergja auk sameiginlegs félagsrýmis.

Umsókn um samstarf um framkvæmdina var send HMS í lok apríl. Aðalheiður segir óljóst hve lengi þurfa að bíða eftir svari, þær upplýsingar hafi fengist hjá stofnuninni að það geti tekið 2-6 mánuði og vonast til að það verði nær tveimur mánuðunum. Gangi allt að óskum er vonast til að byggingin verði boðin út á árinu.

Heimild til að lána út frá byggingakostnaði

Sem fyrr segir eru fyrirhugaðar framkvæmdir á Seyðisfirði hluti af átaki ríkisins til að örva húnsæðismarkað á landsbyggðinni sem kynnt var í árslok 2018. Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra, segir að unnið hafi verið með einstaka sveitarfélögum að því að þróa lausnir til að örva markaðinn.

Þær lausnir sem verkefnið feli í sér hafi komið til framkvæmda ein af annarri. Um síðustu áramót tóku gildi ný lög um stofnframlög til almennra íbúða. Með þeim varð til nýr lánaflokkur fyrir landsbyggðina hjá HMS þannig að hægt er að veita hærri lán út til bygginga á landsbyggðinni.

„Lánastofnanir hafa veitt lán út frá markaðsverði en ef byggt er nýtt hús er kostnaðurinn oft hærri. Með þessu er hægt að lána út frá byggingarkostnaði og fara þar með yfir markaðsverðið ef greiðslugeta er fyrir hendi og fólki hefur verið hafnað,“ segir Ásmundur Einar.

Annað verkefni er leigufélagið Bríet sem yfirtók allar eignir Íbúðalánasjóðs sem ekki höfðu verið seldar. Með tilkomu Bríetar var horfið frá þeirri stefnu að reyna að selja allar eignir sjóðsins og stefnt að því að leigja frekar til að örva leigumarkaðinn.

Ásmundur Einar segir Bríeti hafa farið hægar af stað en ráð var fyrir gert, auk þess sem Covid-19 faraldurinn setti strik í reikninginn, en hann segir að félagið muni hafa burði til að ráðast í uppbyggingu íbúða þar sem þess sé þörf. „Þetta er eitt þeirra tækja sem við getum nýtt til að dreifa fjárfestingu um landið þegar ríkið fer í uppbyggingu.“ Þá eru fleiri úrræði í vinnslu, svo sem hlutdeildarlán sem eiga að koma yngra og tekjulægra fólki til góða, en þar er sérstakur stuðningur við ungt fólk sem er að kaupa sína fyrstu eign.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.