Vilja fá að veiða loðnu með trolli
Forsvarsfólk uppsjávarútgerða hafa óskað eftir því við sjávarútvegsráðherra að fá að veiða loðnu með trolli. Fiskurinn virðist halda sig frekar djúpt.Börkur NK hefur verið ásamt fleiri skipum norður af landinu að leita loðnu. Í frétta á vef Síldarvinnslunnar segir Hálfdan Hálfdanarson, skipstjóri, að töluvert sé að sjá af loðnu en ekki sé hægt að veiða hana því hún standi of djúpt, eða á um 230 metra dýpi.
Hann segir að kastað hafi verið einu sinni í fyrrinótt og þá fengist um tíu tonn af fallegri loðnu. Hálfdan kveðst sannfærður um að veiði yrði góð ef leyft yrði að nota trollin.
Í samtali við Austurfrétt segir Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar að fyrir um tíu dögum hafi verið óskað eftir því við sjávarútvegsráðuneytið að leyfi yrði veitt fyrir veiðum með trolli. Nú sé beðið svars.
„Við erum nokkuð vissir um að við værum að veiða loðnu ef við fengjum að nota trollin. Menn telja sig sjá eitthvað af loðnu en hún er ekki komin nógu langt upp til að nótin nái niður á hana,“ segir hann.