Vilja kjósa um nafn sveitarfélagsins og forseta lýðveldisins í einu

Undirbúningsnefnd um sameiningu Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar hefur til skoðunar að láta velja nafn á nýtt sveitarfélag samhliða forsetakosningum í lok júní. Stefnt er á að kjósa sveitarstjórn þann 19. september.

Í dag er sléttur mánuður frá því að kjósa átti bæði um nafn og sveitarstjórn, sem hefði tekið við í byrjun maí. Kosningunum var hins vegar frestað í mars vegna samkomubanns. Síðan hafa nýjar dagsetningar verið skoðaðar.

Þær eru nefndar í síðustu fundargerð undirbúningsstjórnar en endanlegrar ákvörðunar er að á fundi hennar á morgun.

Björn Ingimarsson, formaður undirbúningsstjórnarinnar, segir nefndarfólk vera sammála um að nýta tækifærið 27. júní og kjósa um nafn samhliða forsetakosningum, verði þær haldnar. Ef ekki verður kosið um nafn, í heimastjórnir og sveitarstjórn allt í einu. Björn telur þó að það myndi létta á seinni kosningunni ef búið yrði að velja nafnið.

Til skoðunar er að kjósa til sveitarstjórnar 19. september. Framboðsfrestur yrði þá til 8. ágúst og nýtt sveitarfélag tæki til starfa með fyrsta fundi nýrrar sveitarstjórnar 4. október. Endanleg ákvörðun verður í höndum ráðherra sveitarstjórnarráðherra, en undirbúningsstjórnin sendir honum aðeins tillögu.

Undirbúningur við kosningarnar var vel á veg kominn þegar þær voru afturkallaðar í mars. Sumt nýtist úr vinnunni þá, samþykktir nýs sveitarfélagsins eru tilbúnar en annað þarf að gera aftur, til dæmis þurfa sveitarstjórnirnar fjórar að kjósa nýja yfirkjörstjórn.

Vinna við sameininguna fór einnig á ís, eins og margt fleira út af Covid-19 faraldrinum í mars. Björn segir að hún hafi aldrei stöðvast alveg, nokkrir starfshópar hafi haldið áfram en sé nú að komast aftur á fulla ferð.

Fundur var haldinn með starfsfólk stjórnsýslu sveitarfélaganna fyrir viku og annar er á dagskrá eftir viku. Með honum verði vinnan komin á þann stað sem hún átti að vera um mánaðarmótin mars/apríl. Á fundunum er vinna undirbúningsstjórnarinnar og staða mála kynnt en einnig kallað eftir sýn starfsfólksins enda mikilvægt að hafa það með í ráðum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.