Vilja prufukeyra nýju vinnsluna fyrir jól

Stefnt er að því að prufukeyra nýja bolfiskvinnslu HB Granda á Vopnafirði fyrir jól. Verið er að klára að ganga frá búnaði í vinnsluna.


„Það eru margir endar sem þarf að koma í samband,“ segir Bárður Jónasson, verkstjóri hjá HB Granda á Vopnafirði.

Hann segir enga dagsetningu enn vera komna á hvenær standsetningu vinnslunnar lýkur en enn sé hið minnsta hálfur mánuður eftir í vinnu. Í dag komu síðustu vélarnar frá 3X Skaganum. „Síðan er verið að klára lagnir fyrir loft, rafmagn og vatn.“

Til stóð að vinnslan tæki til starfa um miðjan október. Það náðist ekki. „Það hefur aðeins tafist með afhendingu á sumum búnaði. Það er spurning hvort við náum að prófa vinnsluna aðeins fyrir jól. Það er hugur á því.“

Vinnslan kostar um milljarð og veitir um 40 starfsmönnum vinnu. Með tilkomu hennar styrkist heilsársvinnsla hjá HB Granda á Vopnafirði.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar