Vilja sjá Nettó í Neskaupstað

Hópur sem stendur að baki undirskriftasöfnun um úrbætur í matvöruverslun í Neskaupstað hyggst framlengja söfnunina til 17. júlí. Í framhaldinu er stefnt á að ná fundi forsvarsfólks Samkaupa, sem hópurinn telur ekki hafa staðið við gefin fyrirheit um úrbætur þegar verslun fyrirtækisins var síðast breytt.

Undirskriftasöfnuninni var hrundið af stað vegna óánægju íbúa í Neskaupstað með vöruúrval og verðlag í Kjörbúðinni, sem er eina matvöruverslun staðarins. Sigríður Margrét Guðjónsdóttir, ábyrgðarmaður undirskriftasöfnunarinnar, leggur ríka áherslu á að óánægjan beinist ekki gegn starfsfólki Kjörbúðarinnar á staðnum. Hins vegar telji íbúar að Samkaup hafi ekki staðið við gefin fyrirheit.

 

Lítið úrval og hátt verð

„Þeir voru búnir að segja að þeir ætluðu að lækka vöruverð með því að breyta þessu í Kjörbúð, stóðu fyrir flottri skoðanakönnun meðal okkar bæjarbúa og annarra landsmanna en standa svo ekki við orð af því sem þeir segja,“ segir Sigríður.

Það er til þess tekið í áskoruninni að vöruverð hafi hækkað mest í Kjörbúðarverslunum á liðnu ári samkvæmt verðkönnunum ASÍ. Það standi upp á Samkaup að bregðast við. „Við þurfum að sjá lækkað vöruverð. Þetta gengur náttúrulega ekkert eins og það er, vöruverðið er gígantískt. Eins er líka með vöruúrvalið. Við erum náttúrulega rosalega bundin af því að í þessari tegund verslana eru kannski 200 tegundir af sælgæti meðan það vantar rabbabarasultu eða eitthvað annað, svona til að taka dæmi.“

Í áskoruninni kemur einnig fram að húsnæði verslunarinnar sé of lítið og það eigi sinn þátt í lélegu úrvali og aðstöðu þar.

 

Komið að íbúunum að berjast

460 manns höfðu ritað undir áskorunina fyrir 1. júlí þegar til stóð að ljúka söfnuninni. Hópurinn sem að henni stendur hyggst þó framlengja hana til 17. júlí og freista þess að fjölga undirskriftum og því er enn hægt að skrifa undir. Breytt löggjöf um persónuvernd setur orðið strik í reikning safnana af þessu tagi. Ísland.is býður upp á að setja upp undirskriftasafnanir sem standast kröfur um persónuvernd en þá þarf að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum. Sigríður Margrét segist aðeins hafa fundið fyrir því að þetta dragi úr þátttöku en telur þó að undirskriftum muni fjölga og segir að nú sé komið að íbúunum að segja sína skoðun og berjast fyrir umbótum.

„Það þýðir ekkert að sitja heima og væla, maður verður að gera eitthvað. Okkar stærsti draumur er að fá Nettó-búð. Við höfum heyrt að veltan hjá okkur sé nógu mikil og það er það sem við viljum sjá. Við vitum að pólitíkin er búin að reyna helling og nú er bara komið að okkur íbúunum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.