Vilji til að byrja á Fjarðarheiðargöngum fyrir 2028

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, voru í gær afhentir listar með um 1800 undirskriftum með áskorun um að hafist verði handa við Fjarðarheiðargöng fyrr en áætlað er í gildandi samgönguáætlun. Ráðherrann segir vilja til að byrja fyrr.

Það var Aðalheiður Borgþórsdóttir, bæjarstjóri Seyðisfjarðarkaupstaðar, sem afhenti listana. Á þá höfðu um 1800 manns á kosningaaldri á Seyðisfirði, Egilsstöðum og í Fellabæ ritað nöfn sín en söfnun undirskrifta hófst síðasta fimmtudag.

„Þetta eru um 50% íbúa á svæðinu, þetta væru 100.000 undirskriftir ef þetta væri höfuðborgarsvæðið,“ sagði Aðalheiður.

Sigurður Ingi sagðist taka glaður við áskorunum. Í ráðuneytinu væri í öllum málaflokkum lagt mikið upp úr annars vegar 15 ára langtímaáætlunum og hins vegar 5 ára aðgerðaáætlunum. Við gerð þeirra væri reynt að hafa sem mest samráð við íbúa landsins þar sem hagsmunirnir væru stærstir.

Undirskriftalistarnir voru afhentir á opnum fundi sem ráðherrann hélt á Egilsstöðum í gær til að kynna skýrslu starfshóps um gangakosti til Seyðisfjarðar. Niðurstaðahópsins er að best sé að bora fyrst undir Fjarðarheiði, síðan áfram til Mjóafjarðar og Norðfjarðar.

Fjarðarheiðargöng eru næst

Í gildandi samgönguáætlun er gert ráð fyrir fyrstu skrefum við Fjarðarheiðargöng í kringum 2028 og framkvæmdum af fullum þunga á tímabilinu 2029-2033. Á fjölsóttum fundinum í gær var mikið reynt til að fá ráðherrann til að lofa því að byrjað yrði fyrr.

Sigurður Ingi sagðist engu geta lofað en sagði vilja vera til þess að byrja fyrr. Hann mun leggja endurskoðaða samgönguáætlun fram á þingi í haust og samhliða henni jarðgangaáætlun til 15 ára.

„Ég ætla ekki að lofa neinu sem ekki er hægt að standa við. Við ætlum að koma fram með gangaáætlun. Það er aðeins tilbúin ein skýrsla um jarðgöng og aðeins ein göng á samgönguáætlun. Miðað við það eru þessi göng [Fjarðarheiðargöng] næst.

Áskorunin núna er á fjármögnunina og hvaða fjármuni við höfum til að fara í á hverju ári í allar þær samgönguframkvæmdir sem kallað er eftir hringinn í kringum landið. Best væri ef við gætum skellt 30 milljörðum á borðið og hafist handa með það, en í svona framkvæmdum þarf yfirleitt að taka framkvæmdalán og mjatla inn á það. Útfærslan er eftir en það er nægur tími í hana. Fyrst og fremst þarf að taka þessa pólitísku ákvörðun.“

Síðan bætti hann við. „Það verður fyrr en 2028. Ég segi ekki hvernig jarðgangaáætlunin lítur út, ég geri það ekki áður en ég sest niður með sérfræðingunum en áhuginn og viljinn er skýr til þess að þetta verði fyrir 2028.“

Veggjöld mikilvæg til að flýta framkvæmdum

Áætlað er að Fjarðarheiðargöng kosti 33-34 milljarða og göng áfram til Norðfjarðar aðra 30 milljarða og hringtenging því samanlagt 64 milljarða. Hugmyndir eru uppi um að framkvæmdirnar verði að hluta til fjármagnaðar með gjaldtöku, bæði í þessi göng og önnur sem til eru á Íslandi.

Sigurður Ingi viðurkenndi að upphæðin væri há og áskorun yrði að finna 64 milljarða, jafnvel þótt framkvæmdirnar dreifist yfir alls 15 ára tímabil. „Við megum ekki detta af stólnum þótt talan sé há,“ sagði hann.

Sigurður Ingi velti upp þeim möguleika að notaðir yrðu fjármunir, svo sem af sölu banka, til samgönguframkvæmda hérlendis, þar með talið jarðganganna. Hann sagði að ýmsir, bæði lífeyrissjóðir og fjárfestingabankar, hefðu sýnt áhuga á að koma að fjármögnunum samgönguframkvæmda eftir að opnað var á möguleikann á veggjöldum.

Sigurður Ingi útskýrði að framundan væru miklar samgönguframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu sem ekki væri hægt að ráðast í á næstunni nema með gjaldheimtu. Útlit væri því fyrir að samstaða væri á landsvísu um að fara þá leið.

„Ég held að þetta sé raunhæft, annars værum við ekki að leggja þetta til. Ég held að þetta sé hægt með þessari samfjármögnun. Ef við erum öll sammála um hana getum við gert gríðarlega mikið á næstu 10-15 árum. Ég held þetta sé raunhæft miðað við umræður á þinginu, í umhverfis- og samgöngunefnd. Það er mikill vilji fyrir að skoða gjaldtöku, allir stjórnarflokkarnir eru sammála um það,“ svaraði Sigurður Ingi aðspurður á fundinum hvort hann teldi tillögu starfshópsins raunhæfa.

Hann var líka spurður hvort hún þætti ekki óþægilegt að umræðan snérist strax um kostnað við framkvæmdina og þá staðreynd að þetta yrðu lengstu göng landsins. „Ég óttast að þurfa að réttlæta það næstu daga að fara í 64 milljarða framkvæmd en við eigum að tala um hlutina eins og þeir eru. Samgöngupakkinn á höfuðborgarsvæðinu er líka risastór og eftir honum þarf að bíða í 30 ár en ekki 15 ef við erum ekki tilbúin að skoða öðruvísi fjármögnun.“

Engin ákvörðun fyrr en heimild þings liggur fyrir

Í skýrslu hópsins kemur fram að tveggja ára undirbúningstíma þurfi áður en hægt sé að byrja á göngunum sem síðan taki sjö ár að grafa. Á fundinum í gær var spurt hvort hægt væri að flýta því, til dæmis með að ráðast strax í frekari rannsóknir og hönnun og hvort ekki hefði tapast dýrmætur tími á að bíða eftir skýrslu starfshópsins í tvö ár, auk þess sem göngin hefðu verið færð aftar í nýjustu útgáfu samgönguáætlunar.

„Þessi framkvæmd er af þeirri stærðargráðu að hana þarf að undirbúa vel. Þú leikur þér ekki að 33-34 milljörðum. Starfshópurinn tók sér tvö ár. Þau hafa ekki tafið fyrir, á meðan hefur verið farið í önnur verkefni sem gagnast öllum. Ég get ekki tekið ákvörðun um undirbúning fyrr en ég hef heimild Alþingis. Sú ákvörðun verður tekin á árinu að eitthvað muni gerast.“

Við verðum að stilla væntingum okkar í eðlilegt horf. Allar upplýsingar sem ég hef eru úr þessari skýrslu og þegar helsti jarðgangasérfræðingur okkar segir að undirbúningur fyrir framkvæmdir taki tvö ár ætla ég ekki að segja að hann taki eitt ár.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar