„Viljum fara aftur og kanna hvort fleiri minjar leynist undir sverði“

„Auk betri forsenda til fornleifarannsókna verður til ríkulegur efniviður með fornleifaskráningu sem hægt er að vinna með til að kynna sögu hvers svæðis og sérstöðu þess þegar kemur að fornminjum,“ segir Kristborg Þórsdóttir, fornleifafræðingur hjá Fornleifastofnun Íslands, sem vinnur nú ásamt Stefáni Ólafssyni að skráningu fornminja á Búlandsnesi við Djúpavog.


Skráning á fornleifum hefur staðið yfir í Djúpavogshreppi frá því árið 2014. „Þá skráðum við fornleifar í landi Teigarhorns rétt utan við Djúpavog. Árið 2016 komum við aftur og skráðum svæðið sem skilgreint hefur verið verndarsvæði í byggð og allt þéttbýlið á Djúpavogi, þá með Gylfa Helgasyni, samstarfsfélaga okkar. Við skráninguna í þéttbýlinu á Djúpavogi komu í ljós gríðarlega margar minjar og mun fleiri en búist var við, en Djúpivogur fékk fyrst allra sveitarfélaga samþykkta tillögu um verndarsvæði í byggð.

„Nú erum við að vinna fornleifaskráningu á því sem enn er óskráð á Búlandsnesjörðinni sem Djúpivogur byggist úr. Við verður hér út þessa viku og svo mun úrvinnslan fara fram í haust og skýrsla koma út næsta vetur eða vor. Þessi verkefni eru öll unnin fyrir Djúpavogshrepp og hafa bæjaryfirvöld þar sýnt mikið frumkvæði við skráningu menningarminja og virkjað heimamenn, meðal annars með því að fá fólk til að greina gamlar myndir og stuðla að varðveislu þeirra.

Fornleifaskráning er líka skipulagsmál en samkvæmt lögum eiga sveitarfélög að láta skrá fornleifar hjá sér sem hluti af aðalskipulagsvinnu. Misbrestur hefur verið á því að sveitarfélögin hafi sinnt þessu mikilvæga máli sem nýtist þeim gríðarlega vel og sparar bæði tíma og peninga og auðveldar alla skipulagsvinnu ef fornleifarnar eru teknar með í reikninginn frá byrjun.“

Þróa má rannsóknarverkefni út frá fornleifaskráningu
Kristborg segir að fornleifaskráning sé grunnrannsókn á fornleifum og gríðarlega mikilvægt að hún fari fram um allt land. „Skráningin gefur okkur upplýsingar um fjölda minja í landinu, gerð þeirra, dreifingu og ástand. Enn eru stór svæði á landinu óskráð, meðal annars á Austurlandi. Upp úr niðurstöðum grunnrannsókna á borð við fornleifaskráningu má svo þróa ítarlegri rannsóknarverkefni, til dæmis uppgrefti. Auk betri forsenda til fornleifarannsókna verður til ríkulegur efniviður með fornleifaskráningu sem hægt er að vinna með til að kynna sögu hvers svæðis og sérstöðu þess þegar kemur að fornminjum.“

Hvaðan komu rómversku peningarnir?
Kristborg segir að í kjölfar skráningarinnar á Djúpavogi hafi verið sótt um styrki í Fornminjasjóð til þess að grafa upp gamla kaupstaðarbrunninn sem vitað er að var á milli Löngubúðar og Faktorshúss. Styrkurinn fékkst ekki, en segir hún það lítið dæmi um verkefni sem hefði getað orðið til í kjölfar fornleifaskráningar.

„Annað dæmi er á Bragðavöllum, en þar sóttum við um að fara aftur á frægan fornleifastað þar sem tveir mjög sjaldséðir rómverskir peningar fundust í rústum frá Víkingaöld. Áhuginn á staðnum vaknaði í kjölfar fornleifaskráningar sem bændur á Bragðavöllum stóðu straum af vegna uppbyggingar í ferðaþjónustu. Við viljum fara aftur og kanna hvort að fleiri minjar leynist þar undir sverði sem á eftir að rannsaka nánar og reyna að komast nær því að skilja hvernig þessir peningar lentu á þessum stað fyrir 1000 árum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar