Vill auka jafnræði byggða með nýrri útfærslu strandveiðikerfisins

Þingmaður Samfylkingarinnar, Eydís Ásbjörnsdóttir, hvetur atvinnumálaráðherra að leiðrétta þá þekktu skekkju í strandveiðikerfinu að aflaheimildir hafa verið að klárast áður en fiskur fer að ganga í magni inn á svokallað C-svæði á Norður- og Austurlandi.

Vinna við útfærsluna hefur staðið yfir um tíma allar götur frá því að ný ríkisstjórn setti fjölgun sóknardaga strandveiðibáta upp í 48 daga inn í stjórnarsamning sinn.

Umræður um kerfið sköpuðust á Alþingi fyrir skömmu þegar Vilhjálmur Árnason, Sjálfstæðisflokki, gerði að umtalsefni að markmið laga um strandveiðar á sínum tíma hafi verið að ná fram byggðasjónarmiðum og auka nýliðun í greininni. Það hafi ekki tekist að hans mati.

Eydís sagði að vissulega væru ýmsar vísbendingar sem bentu til að útfærsla strandveiðikerfisins hingað til hafi ekki verið endilega til þess fallin að auka byggðafestu en þessar veiðar skipti byggðirnar máli og þá ekki hvað síst byggðir í viðkvæmri stöðu. Hins vegar þyrfti að tryggja meira jafnræði.

Ég vona að litið verði til aukins jafnræðis á milli byggðanna við endurskoðun kerfisins. Á Norðurlandi og Austfjörðum, C-svæði strandveiðanna, hefur verið megn óánægja með það að aflaheimildirnar eru við það klárast þegar fiskurinn loksins gengur norður og austur fyrir land. Útfærsla strandveiðikerfisins að þessu leyti hefur ekki náð að tryggja jafnræði. Þarna er skekkja sem vert er að staldra við.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar