Vjelsmiðja Jóhanns Hanssonar fær að standa

Ákveðið hefur verið gera við þann hluta húsnæðis Vjelsmiðju Jóhanns Hanssonar, sem enn stendur, frekar en rífa hana. Vjelsmiðjan stórskemmdist í stóru skriðunni sem féll á Seyðisfjörð 18. desember 2020 og er á hættusvæði.

„Elsti hluti hússins fór í skriðunni og húsið var í kjölfarið metið ónýtt og dæmt á það altjón, sem þýðir að viðgerð er dýrari en brunabótamatið.

Húsið var tekið af fasteignaskrá. Þá ber að rífa það og við fengum bætur samkvæmt því. Það er hins vegar einstakt að friðað hús lendi í svona tjóni þannig við ákváðum að flýta okkur ekki við niðurrifið.

Margir Seyðfirðingar gátu ekki hugsað sér að húsið yrði rifið og fleiri voru sama sinnis, meðal annars sérfræðingar Minjastofnunar. Við fengum þess vegna ástandsmat verkfræðinga á húsinu og lögð var fram áætlun um úrbætur, auk þess sem fundað var með Náttúruhamfaratryggingum um að fjármagnið sem átti að greiða fyrir niðurrif færi í endurbætur á húsinu.

„Bæði það og úrbótaáætlunin voru samþykkt,“ segir Jónína Brynjólfsdóttir, starfandi safnstjóri Tækniminjasafns Austurlands, en húsið tilheyrði safninu og hýsti hluta þess.

Elsti hlutinn ónýtur

Húsið var upphaflega byggt árið 1907 fyrir starfsemi ungs vélsmiðs, Jóhanns Hanssonar, sem hafði árið áður flutt til Seyðisfjarðar. Fyrirtæki hans þótti eitt hið fullkomnasta á landinu og vakti reimdrifinn tækjakostur, sem hann smíðaði, mikla athygli. Sá búnaður, ásamt fleiri gripum, var í elsta hluta hússins. „Sá hluti fylltist af grjóti og drullu þannig allt sem var inni í honum, þar með talið rennibekkurinn, eyðilagðist,“ segir Jónína.

Sá hluti sem enn stendur er, samkvæmt Húsasögu Seyðisfjarðar, byggður 1918 undir járn- og málbræðslu. Núna er verið að ganga frá því sem til þarf þannig hægt sé að ráðast í úrbæturnar. „Fyrst og fremst er markmiðið að tryggja öryggi hússins þannig það skemmist ekki meira. Við gerum eins mikið og við getum í ár.“

Minnisvarði um skriðurnar

Til stendur að nýta húsið undir safnastarfsemi þótt það sé á hættusvæði C, sem þýðir að ekki megi geyma þar safnmuni sem teljast fágætir.

„Við sjáum tækifæri í að Vjelsmiðjan standi áfram. Ef vel tekst til við úrbæturnar getur hún nýst bæði safninu og samfélaginu. Þótt við megum ekki hafa safnmuni þá er samt hægt að hafa hluti þar þannig hægt sé að setja þar upp sýningar. Eldsmiðjan er heil þannig að hægt er að halda námskeið þar í tengslum við Smiðjuhátíðina.

Þetta er steinhús sem aldrei verður flutt en það getur til dæmis orðið fallegur minnisvarði um aurskriðuna. Við ætlum að láta örið, þar sem gamli hlutinn stóð, sjást áfram. Það skiptir máli að Vjelsmiðjan standi og við viljum hún verði falleg á ný.“

Skoða framtíðarlausnir

Sjálft er Tækniminjasafnið enn húsnæðislaust í kjölfar skriðufallanna. Styrkir hafa fengist til að halda grunnrekstri þess gangandi á meðan unnið er að opnun á ný. Þessa dagana er samtímis verið að undirbúa útisýningu sem opnuð verður í sumar, sem og framtíðina.

„Það er ýmislegt að gerast hjá okkur. Eins og fleiri bíðum við eftir hættumati. Ráðgjafahópur um framtíð húsanna á Seyðisfirði lagði til að safnasvæði yrði byggt upp við Lónsleiru. Við höfum unnið áfram eftir þeim hugmyndum,“ segir Jónína að lokum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.