Vonbrigði með viðbrögð heimastjórnar vegna utanvegaaksturs

„Ef þetta verða einu viðbrögðin að vísa á einhvern annan þá gerist bara það sem hefur alltaf gerst sem er ekki neitt,“ segir Þórhallur Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Fljótsdalshéraðs.

Þórhallur og Þorvaldur Hjarðar frá ferðafélaginu fóru fyrir skemmstu á fund með heimastjórn Fljótsdalshérað þar sem þeir fóru yfir slæmt ástand á vegslóðum og kynntu mýmörg dæmi um utanvegaakstur á vegum utan alfararleiða sem Múlaþing ber ábyrgð á og skal viðhalda.

Um nokkra vegi er þar að ræða á Brúardölum eins og frá Kárahnjúkastíflu yfir Sauðárstíflu, gegnum Brúardal, framhjá Fagradal og yfir á veginn við Álfadalsá

Fóru þeir félagar þess á leit að Múlaþing gerði bragarbót og lagfærði vegslóða á hálendinu sem fyrst. Þórhallur segir slíkt ekki þurfa að kosta mikið og telur að tíu milljónir eða svo færu langt í þessu sambandi.

„Við erum ekki að fara fram á mikið. Það þarf engar stóraðgerðir til að bæta úr heldur í raun aðeins að lagfæra spotta hér og þar sem eru sérstaklega slæmir og ferðafólk fer utanvega til að forðast. Ég myndi halda að slíkar lagfæringar yrðu varla dýrari en tíu milljónir eða svo og það strax myndi án vafa minnka allan utanvegaakstur.“

Gott dæmi um hvað þeir félagar eru að fara má sjá á meðfylgjandi mynd sem Þórhallur tók. Þar má sjá vegarslóðann sjálfan kominn á kaf í vatn á stórum kafla, ferðalangar sneiða þar framhjá og valda stórum spjöllum á ósnertu landi.

Það sem Þórhallur segist mest vonsvikinn með eru viðbrögð heimastjórnar Fljótsdalshéraðs vegna erindisins en hann hefur um margra ára skeið barist gegn utanvegaakstri og ítrekað óskað liðsinnis ríkis og sveitarfélaga í þeirri baráttu.

Heimastjórnin sjálf tók erindinu vel og bókaði að því yrði beint til sveitarstjórnar Múlaþings að koma ábendingum ferðafélagsmanna áfram til stjórnvalda og Vegagerðarinnar.

Það eru viðbrögð sem Þórhallur hefur fengið áður og segist vonlítill um að nokkuð komi út úr slíkum tilmælum frekari en fyrrum.

„Það er segin saga þegar menn benda á einhverja allt aðra að það er að mínu viti ávísun á að ekkert gerist. En þar sem ég er þrjóskari en allt sem þrjóskt er þá böðlast ég áfram í að vekja á þessu athygli.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar