Vopnafjörður: Vilja frekari gögn um hreindýraeldi

Landbúnaðarnefnd Vopnafjarðarhrepps hefur óskað eftir frekari gögnum um hugmyndir tveggja athafnamanna um að hefja hreindýraeldi í firðingum. Atvinnumálanefnd fagnar framtaki sem kunni að auka aðdráttarafl byggðarlagsins.


Tvímenningarnir hafa áður haft uppi hugmyndir um hreindýraeldi en endurnýjuðu þær fyrr í vetur og hyggja nú að byggja upp fræðslu- og kynningarsetur um hreindýr með kjötframleiðslu sem aukabúgrein.

Hugmyndir þeirra byggja á að fá 200 dýr úr villta íslenska stofninum keypt eða lánuð. Þeim verði síðan haldið innan girðingar í Vopnafirði.

Í erindi þeirra til sveitarfélagsins er óskað eftir stuðningi og sagt að eldið geti eflt sveitarfélagið. Þeir segja 100 þúsund manns heimsækja Möðrudal og áætla að sami fjöldi sé tilbúinn að heimsækja setrið.

Starfshópur á vegum umhverfisráðherra lagðist gegn fyrri hugmyndum um hreindýraeldi. Hann varaði einkum við breyttri landnotkun og sjúkdómahættu.

Vísað er til niðurstöðu starfshópsins í umsögn landbúnaðarnefndar. Útiloka verði möguleika á samgangi eldisdýra við villt hreindýr.

Nefndin telur sig því ekki geta mælt með umsókninni nema fyrri liggi ítarlegri gögn. Því sé nauðsynlegt að tvímenningarnir fundi með nefndinni.

Atvinnumálanefnd sveitarfélagsins fagnar hins vegar hugmyndunum þar sem það getu orðið til að auka aðdráttarafl Vopnafjarðar fyrir ferðafólk. Í bókun er lýst jákvæðu viðhorfi til eldisins enda sé ljóst að starfsemin verði alfarið í Vopnafirði.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.