Voru sakamenn dæmdir til að stækka kirkjugarðinn á Skriðuklaustri?
Útlit er fyrir að lokið verði við að grafa upp rústir Skriðuklausturs í sumar. Í ljós hefur komið að garðurinn var stækkaður á klausturtímanum. Það gæti passað við dóm biskups sem dæmdi þjófa, sem rændu úr landi klaustursins, til samfélagsþjónustu.
„Það er útlit fyrir að okkur takist að klára í sumar eins og við ætluðum okkur,“ segir dr. Steinunn Kristjánsdóttir sem stýrir uppgreftrinum. „Við erum að grafa í jöðrunum á klausturhúsunum, öskuhaugnum og grafa upp sáluhliðið og innganginn í kirkjugarðinn.“
Að verkinu í sumar vinnur 16 manna hópur: Íslendingar, Bretar og Svíar. Auk þeirra eru sérfræðingar í Reykjavík sem vinna úr þeim gögnum sem berast frá Klaustri.
Tímafrekasta vinnan sem eftir er við að grafa upp grafir. „Við vitum ekki hvað þær eru margar. Þær eru orðnar 207 en ég hugsa að við eigum 30 eftir.“
Í ljós hefur komið að kirkjugarðurinn var á klausturtímanum stækkaður í átt til suðurs. Það virðist hafa verið gert vegna mikillar ásóknar í klaustrið þar sem hlúð var að sjúkum.
„Það er lítið jarðað í þessum nýja hluta. Væntanlega hefur þurft að stækka garðinn því það komu fleiri hingað en nokkurn tíman var búist við. Fjöldi þeirra sem í garðinum er jarðaður er mikill. Í landinu bjuggu 30.000 manns á þessum tíma og það var einnig sóknarkirkja á Valþjófsstað þar sem var jarðað.“
Til er dómur sem gæti gefið vísbendingar um hverjir unnu við stækkunina. „Það er til biskupsúrskurður um menn sem fóru inn í land Skriðuklausturs og stálu þaðan hrís og torfi. Refsingin var að vinna við endurbætur í kirkjugarðinum. Úrskurðurinn er frá 1524 en klaustrið var rekið í sextíu ár frá aldamótunum 1500, þar af síðustu tíu árin í lamasessi eftir siðaskiptin í Skálholti. Tímasetningin á úrskurðinum gæti vel passað við stækkunina.“
Mynd: Hópurinn sem vinnur við uppgröftinn í sumar. Mynd: GG