Yfir 1000 Austfirðingar á hlutabótum

Yfir 1000 manns á Austurlandi eru nú skráð á hlutabótaleið ríkisins. Atvinnuleysi hefur stóraukist á fáum mánuðum. Líkt og á landinu öllu verður ferðaþjónustan verst úti.

Þetta kemur fram í tölum frá Vinnumálastofnun. Austurumdæmi hennar nær frá Vopnafirði til Hornafjarðar og á því svæði voru 1027 manns skráðir á hlutabætur í lok apríl. Flestir þeirra voru á Hornafirði, 419, 300 á Fljótsdalshérað og 180 í Fjarðabyggð.

Líkt og á landinu öllu hefur austfirsk ferðaþjónusta farið verst út úr Covid-19 kreppunni. Af þeim sem eru á hlutabótum hafa 52% starfað við ferðaþjónustu þar af 30% við gistiþjónustu, 9% í veitingaþjónustu og 12% í annarri ferðaþjónustu.

Aðrar atvinnugreinar fara þó ekki varhluta af ástandinu. 14% þeirra sem eru á hlutabótunum starfa við verslun og vöruflutninga, 6% við sjávarútveg og sama hlutfall við byggingariðnað. Þá eru um 60% þeirra sem farið hafa á hlutabætur á aldrinum 18-40 ára. Þótt ástandið sé ekki gott kemur þó fram að Austfirðingar hafi almennt sloppið betur en til dæmis Suðurnesjamenn eða Sunnlendingar.

Í gögnunum koma fram þær breytingar sem orðið hafa frá mars og fram í apríl. Langflestir þeirra sem fóru á hlutabætur voru skráðir á þær fyrir lok mars. Nokkrir bættust við í apríl. Í þeim hópi voru fleiri konur en karlar og þar sjást áhrif á ferðaþjónustu, fiskvinnslu, verslun og opinbera þjónustu, en undir þeim flokki eru meðal annars hárskerar og og sjúkraþjálfarar sem ekki máttu veita sína þjónustu eftir 23. mars.

Í lok apríl var staðan sú að atvinnuleysi á svæðinu mældist alls 13,4% en var 18% á landinu öllu. Þar af mældist almennt atvinnuleysi 4,7% samanborið við 7,2% á landsvísu. Það er talsvert dekkri mynd en í fyrra. Á Austurlandi voru 321 atvinnulausir í apríl nú en voru 275 í fyrra og 140 í maí. Þá voru 8,8% á hlutabótum á Austurlandi samanborið við 10,8% á landsvísu. Heildaratvinnuleysi í lok mars á Austurlandi var 6,4%.

Um fjórðungsatvinnuleysi á Djúpavogi og Hornafirði

Þegar rýnt er í einstök sveitarfélög kemur í ljós að staðan er verst á Djúpavogi og Hornafirði. Á Hornafirði mældist atvinnuleysi í lok apríl 26,6% og 23% á Djúpavogi. Á Hornafirði skýrast tölurnar nær alfarið af samdrætti í ferðaþjónustu, yfir helmingur þeirra sem er í lækkuðu starfshlutfalli starfar við gistiþjónustu og 80% við ferðaþjónustu. Svipaðar hlutfallstölur er að sjá á Seyðisfirði, þótt þær séu örlítið lægri.

Á Djúpavogi hefur stærstur hluti þeirra sem eru á hlutabótum starfað við fiskveiðar, vinnslu eða eldi, eða 72%. Þá eru starfsmenn þaðan 88% þeirra sem eru á hlutabótum innan sjávarútvegs á Austurlandi.

Á Borgarfirði var atvinnuleysi 13,5%, 12,3% á Fljótsdalshéraði, 9,1% á Seyðisfirði, 7,9% í Fljótsdal og 7,5% í Fjarðabyggð. Á öllum stöðum eykst atvinnuleysið umtalsvert frá því í mars. Staðan er hins vegar gerbreytt frá í febrúar þegar atvinnuleysi þekktist vart í fjórðungnum.

Sömu sögu er að segja af Vopnafirði þar sem atvinnuleysi var 16,3% í lok apríl. Vopnafjörður sker sig nokkuð úr því almennt atvinnuleysi er töluvert hærra þar en annars staðar eða 9,9%. Loðnubrestur hefur það áhrif, en þekkt er að atvinnuleysi vaxi þar yfir vetrarmánuðina en lækki um leið og makrílvertíð hefst í júlí og haldist lágt fram til jóla.

Léttir til í maí

Í gögnum Vinnumálastofnunar er að finna upplýsingar um þróunina fyrstu daga maímánaðar. Þær benda til þess að atvinnuleysi sé heldur að minnka, enda þó nokkrir sem gátu snúið aftur til vinnu með tilslökunum samkomubanns á mánudag. Von er á að atvinnuleysið minnki heldur í maí og júní þar sem farið verður yfir skráningar hlutabóta, sem upphaflega voru aðeins í gildi til 31. maí.

Sérfræðingar stofnunarinnar eru hins vegar svartsýnni fyrir stöðunni síðar í sumar og í haust. Viða um land gripu fyrirtæki til hópuppsagna áður en maí gekk í garð. Engin slík mun þó hafa verið á Austurlandi. Þeir einstaklingar sem fengu uppsagnarbréf í lok apríl birtast ekki í atvinnuleysistölum fyrr en seint í sumar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar