Ýkjur að sameining sé langt komin

Formenn Knattspyrnufélags Fjarðabyggðar og Leiknis Fáskrúðsfjarðar vilja lítið segja um möguleikann á að félögin sameinist um lið í Íslandsmóti karla í knattspyrnu næsta sumar.

Aðilar, sem þekkja vel til í austfirskum knattspyrnuheimi, hafa undanfarnar vikur fullyrt við Austurfrétt að sameining liðanna sé langt kominn eða jafnvel frá genginn.

Þeim fullyrðingum höfnuðu formennirnir, Magnús Ásgrímsson og Hilmir Ásbjörnsson, þegar Austurfrétt bar þær undir þá í dag. Hilmir sagði það ýkjur að málin væru svo langt komin en Magnús að þau væru „ekki komin á neitt stig.“

Hvorugur vildi mikið segja um málin á þessari stundu. „Ég get ekki tjáð mig um hvort eitthvað sé í farvatninu. Einhverjir eru að hugsa og ég útiloka ekki að af þessu verði,“ sagði Magnús.

„Ég hef heyrt áhuga á þessu úr samfélaginu. Fólk er tilbúið að ráðleggja okkur þótt það mæti ekki á leiki. Annars er lítið hægt að gefa út um þetta. Ég get ekki sagt það séu komnar viðræður,“ sagði Hilmir. Báðir nefndu að sendar yrðu út upplýsingar ef málin færu í formlegri farveg.

Fjarðabyggð sendi um helgina frá sér tilkynningu um að Heimir Þorsteinsson yrði ekki þjálfari liðsins áfram. Aðspurður sagði Hilmir að sú ákvörðun tengdist mögulegri sameiningu ekki á nokkurn hátt.

Hugmyndir um sameiningu félaganna eru ekki nýjar af nálinni en til þessa hefur ekki orðið neitt úr þeim. Er það helst talið til tekna að búa mætti til öflugan leikmannahóp ef liðin leggðu saman.

En ýmis mál eru óleyst áður en að því verður. Knattspyrnufélag Fjarðabyggðar er í raun bandalag Þróttar Neskaupstað, Austra Eskifirði og Vals Reyðarfirði þannig að leikmenn KFF eru skráðir í eitthvert liðanna þriggja. Þannig þyrfti að greiða úr því hvort Leiknir gengi inn í bandalagið eða hvort liðið yrði sameiginlegt frá Leikni og Fjarðabyggð.

Eins þyrfti svör frá Knattspyrnusambandinu um í hvaða deild liðið myndi spila á næstu leiktíð. Leiknir verður í annarri deild en Fjarðabyggð féll úr henni. „Það er erfiðra að koma með svör en spurningar,“ segir Hilmir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.