100 daga áætlun ríkisstjórnarinnar gerð opinber

Ný ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttu forsætisráðherra tók við í dag. Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs var kynntur í dag. Í stjórnarsáttmálanum kemur meðal annars fram varðandi stjórnkerfisumbætur að fækka eigi ráðuneytum úr 12 í 9 í áföngum. Nýtt ráðuneyti sveitastjórna, samgöngu- og byggðaþróunar fær til viðbótar við fyrri verkefni aukið vægi varðandi eflingu sveitarstjórnarstigsins, sem tengist m.a. tilfærslu verkefna frá ríki til sveitarfélaga, auk stefnumótunar á sviði byggðaþróunar. Í kafla stjórnarsáttmálans sem nefndur er sóknarstefna til framtíðar segir meðal annars að ríkisstjórnin muni efna til víðtæks samráðs undir forystu forsætisráðuneytisins um sóknaráætlanir fyrir alla landshluta til eflingar atvinnulífs og lífsgæða til framtíðar.

slenski_fninn_vefur.jpg

 

Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar, þau Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Steingrimur J. Sigfússon fjármálaráðherra, kynntu á blaðamannafundi í dag þau áform sem ríkisstjórnin hefur uppi og hyggst ljúka á næstu 100 dögum. Listinn er fjölbreyttur og tekur til margra málaflokka meðal annars er varða ríkisfjármálin og bankamálin en einnig mál er varða hag heimila og fyrirtækja:

Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs: 100 daga áætlun – áformaðar aðgerðir:

 

·         Forsendur fjárlaga 2010 og áætlun í ríkisfjármálum til millilangs tíma afgreidd í ríkisstjórn.

·         Skýrsla vegna áætlunar í ríkisfjármálum 2009 og áætlunar til millilangs tíma lögð fram á Alþingi.

·         Ákvörðun um eigendastefnu og eignarhald bankanna tekin í ríkisstjórn.

·         Endurmat á aðgerðaáætlun vegna skuldavanda heimilanna.

·         Átak í kynningu og efldri þjónustu vegna greiðsluvandaúrræða fyrir heimili í skuldavanda.

·         Þingsályktunartillaga vegna umsóknar Íslands um ESB lögð fram á Alþingi.

·         Endurskoðun hafin á fiskveiðistjórnunarkerfinu.

·         Frumvarp um handfæraveiðar smábáta yfir sumartímann lagt fram á Alþingi.

·         Lokið skal mikilvægum samningum til lausnar vegna erlendra eigenda krónubréfa.

·         Lokavinna við samninga um erlendar kröfur – Icesave.

·         Lokavinna við samninga um erlend lán við vinaþjóðir.

·         Ná samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins um stöðugleikasáttmála.

·         Frumvarp lagt fram á Alþingi um aðgerðir gegn skattundanskotum.

·         Fyrsta úttekt AGS vegna efnahagsáætlunarinnar afgreidd í stjórn AGS.

·         Ákvörðun tekin um framtíðareignarhald nýju bankanna og mögulegt erlent eignarhald.

·         Samkomulag milli nýju bankanna og kröfuhafa erlendu bankanna afgreitt.

·         Dregið úr gjaldeyrishöftum.

·         Frumvarp um persónukjör lagt fram á Alþingi.

·         Frumvarp lagt fram á Alþingi um ráðgefandi stjórnlagaþing sem kosið verði til samhliða sveitarstjórnarkosningum 2010.

·         Frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslur lagt fram á Alþingi.

·         Endurskoðun á reglum um fjármál stjórnmálaflokka hafin.

·         Endurskoðun hafin á upplýsingalögum í því augnamiði að auka aðgengi almennings og fjölmiðla að upplýsingum stjórnarráðsins.Frumvarp um eignaumsýslufélag lagt fram á Alþingi.

·         Frumvarp um breytingu á lögum um sparisjóði lagt fram á Alþingi.

·         Gripið til viðeigandi aðgerða til að lækka hæstu laun hjá ríkinu og félögum á þess vegum með það að leiðarljósi að enginn verði með hærri laun en forsætisráðherra.

·         Frumvarp um breytingar á stjórnarráði Íslands lagt fram á Alþingi.

·         Frumvarp lagt fram á Alþingi um að breyta lögum um LÍN þannig að ekki verði lengur krafist ábyrgðarmanna.

·         Nýjar reglur um nefndarþóknanir, risnu og ferðakostnað samþykktar af ríkisstjórn.

·         Ný yfirstjórn ráðin í Seðlabanka Íslands.

·         Lokið við efnahagsreikninga nýju bankanna og þeir endurfjármagnaðir.

·         Lokið við endurfjármögnun og –skipulagningu sparisjóða sem óskað hafa eftir stofnfjárframlagi frá ríkinu.

·         Samráðsvettvangur ríkisstjórnar, sveitarfélaga, landbúnaðarins og aðila vinnumarkaðarins settur á fót.

·         Byrjað verði að móta atvinnustefnu í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins og háskólasamfélagsins. Meðal markmiða sé að Ísland verði meðal 10 samkeppnishæfustu landa heims árið 2020.

·         Viðræður hafnar við lífeyrissjóði og innlenda fjárfesta um að að koma  að eflingu atvinnulífs með hinu opinbera.

·         Tillögur að nýju almannatryggingakerfi lagðar fyrir ríkisstjórn.

·         Nýjar útlánareglur afgreiddar hjá LÍN.

·         Hafin vinna við mótun heildstæðrar orkustefnu. Stefnan miði m.a. að því að endurnýjanlegir orkgjafar leysi innflutta orku af hólmi.

·         Sett á fót tekjustofnanefnd sem hafi það hlutverk að vinna tillögu um breikkun og styrkingu tekjustofna  sveitafélaga.

·         Náttúruverndaráætlun til ársins 2013 lögð fram á Alþingi.

·         Ráðgefandi hópur útgerðarmanna og sjómanna um veiðiráðgjöf og nýtingu sjávarauðlinda og ástands lífríkis sjávar skipaður.

·         Vinna hafin við mótun sóknaráætlana fyrir alla landshluta til eflingar atvinnulífs og lífsgæða til framtíðar.

·         Vinna hafin við mótun menningarstefnu til framtíðar í samráði við listamenn.

·         Efld úrræði Vinnumálastofnunar og Nýsköpunarmiðstöðvar til að bregðast við atvinnuleysi.

·         Frumvarp um bætt umhverfi sprota og nýsköpunarfyrirtækja lagt fram á Alþingi.

·         Átak til að fjölga sumarstörfum og nýjum atvinnutækifærum fyrir ungt fólk.

·         Sparnaðarátak í ríkiskerfinu með þátttöku starfsmanna, stjórnenda og notenda þjónustunnar sett í gang.

·         Vinna hafin við gerð yfirlits um stöðu og þróun lykilstærða í samfélags- og efnahagsmálum þjóðarinnar og framtíðarvalkosti. 

·         Stöður bankastjóra ríkisbankanna auglýstar lausar til umsóknar.

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.