Einar Már snýr aftur: Töluvert af kennaraliðinu eru fyrrverandi nemendur

einar mar sigurdssonEinar Már Sigurðsson, sem í haust snéri aftur í starf skólastjóra Grunnskólans á Fáskrúðsfirði eftir þrjátíu ára fjarveru, segir frábært að vera kominn aftur á Fáskrúðsfjörð og sjá breytingarnar sem orðið hafi á skólastarfinu á þeim tíma.

„Þetta er eiginlega miklu skemmtilegra en ég þorði að vona," segir Einar Már. Hann stýrði skólanum á árunum 1979-1982 og hefur því verið 31 ár í burtu.

„Það er frábært að koma heim og sjá allar breytingarnar sem afa orðið. Húsnæðið er orðið stórkostlegt og breytingarnar allar jákvæðar, nema að nemendunum hefur fækkað. Vonandi snýst það við."

Einar Már tók upphaflega við skólastjórastöðunni á Fáskrúðsfirði eftir að hafa lokið kennaraprófi en hafði starfað sem kennari í nokkur ár að loknu stúdentsprófi, meðal annars á Vopnafirði.

„Fyrsta skólastjórastarfið mitt var hér og það eru líkur á að þetta verði það síðasta. Ég er búinn að loka hringnum. Það hafa samt einhverjir strítt mér og spurt hvort ég sé ekki að byrja annan."

Einar flutti sig síðan yfir á Norðfjörð þar sem hann starfaði fyrst við grunnskólann og síðar Verkmenntaskólann. Hann sat á Alþingi frá 1999-2009 en snéri sér aftur að skólastjórnun og var síðast í Valsárskóla á Svalbarðsströnd.

Nokkur gamalkunnug andlit hafa tekið á móti honum á Fáskrúðsfirði. „Aðstoðarskólastjórinn minn, Eygló Aðalsteinsdóttir, var kennari hér þegar ég var hér síðast. Hún kom um leið og ég, 1979 og hefur verið hér með hléum síðan.

Ég réði líka Guðfinnu Kristjánsdóttir sumarið sem ég hætti. Síðan er töluvert af kennaraliðinu sem voru nemendur mínir."

Einar Már segir jafn auðvelt að hemja þá sem kennara og sem nemendur. „Fólk hefur þroskast og breyst en þetta eru sömu ljúflingarnir."

Fyrrum nemendur Einars eru líka komnir í fleiri hlutverk á Fáskrúðsfirði. „Skemmtilegustu spurningarnar fékk ég fyrstu dagana þegar ungir nemendur komu til mín og nefndu ýmis nöfn og spurðu hvort ég myndi eftir þessum eða hinum. Ég þurfti stundum að hugsa mig upp en gaf yfirleitt rifjað viðkomandi upp að lokum. Þá voru þetta foreldrar krakkanna. Ég er kominn þann hringinn líka!"

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar