Davíð Þór í yfirheyrslu: Það leggst mjög vel í mig að flytja austur

David-thorDavíð Þór Jónsson er verðandi héraðsprestur í Austurlandsprófastsdæmi. Hann er guðfræðingur að mennt, en undanfarin ár hefur hann þó aðallega starfað sem þýðandi. 

„Ég hef einkum þýtt barnaefni til talsetningar fyrir sjónvarp og kvikmyndir undanfarin ár, en einnig þýtt fyrir bókaforlög. Árið 2012 gegndi ég embætti fræðslufulltrúa Austurlandsprófastsdæmis í 6 mánuði í barneignarleyfi sr. Þorgeirs Arasonar.

Það var fyrir austan sem ég sannfærðist endanlega um mína innri köllun til kirkjulegrar þjónustu og þess vegna er það mér sérstakt ánægjuefni að mín ytri köllun skuli koma þaðan. Það leggst mjög vel í mig að flytja austur, annars hefði ég ekki í þrígang sótt um embætti á Austurlandi“, segir Davíð þegar Austurfrétt heyrði í honum og fékk hann í yfirheyrslu.

Fullt nafn: Davíð Þór Jónsson

Aldur: 49 ára

Starf: Verðandi héraðsprestur í Austurlandsprófastsdæmi

Maki: Þórunn Gréta Sigurðardóttir

Börn: Hulda, Ísold og Númi

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi? Ég á mér marga uppáhaldsstaði á Austurlandi. Ég var ákaflega hrifinn af Seyðisfirði þegar ég bjó þar. Mér finnst Skriðuklaustur frábær staður. Þar er gott kakó. Tengdafjölskylda mín á hús á Borgarfirði eystra þar sem mér hefur alltaf liðið vel.

Nefndu þrennt sem þú átt alltaf í ísskápnum? Appelsínumarmelaði er alltaf til í mínum ísskáp og svo þetta sem maður reynir að verða ekki uppskroppa með, s.s. smjör og ostur.

Hvaða töfralausn trúir þú á? Ég trúi ekki á töfralausnir. Kraftaverk, já. En töfralausnir ... nei.

Í hverju felst nýja starfið þitt? Það felst í mjög fjölþættum verkefnum. Auk ýmiss konar íhlaupaverkefna og afleysinga fyrir presta prófastsdæmisins mun ég hafa umsjón með Kirkjumiðstöð Austurlands á Eiðum og gegna skipulags- og samræmingarhlutverki gagnvart barna- og æskulýðsstarfi og öðru sem hugsa þarf og framkvæma á prófastsdæmisvísu

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn? Mér finnst allur matur sem eldaður er af kunnáttu og ástríðu úr góðu hráefni góður. Ég er mjög nýjungagjarn. Það er fátt sem ég borða ekki, það er þá einna helst skemmdur matur á borð við kæsta skötu.

Ef þú ætlar að tríta þig vel, hvað gerir þú? Ég „tríta“ mig ekki. Ég geri vel við mig. Þá slekk ég á símanum og hreiðra um mig í sófanum í innifötunum með góða bók.

Hvernig líta kosífötin þín út? Snjáðar gallabuxur og hólkvíð, þvæld hettupeysa.

Er Lagafljótsormurinn til? Að sjálfsögðu. Efast einhver um það?

Hver er uppáhalds skyndibitinn þinn? KFC.

Hver er uppáhalds liturinn þinn? Það fer eftir því hvernig liggur á mér. Stundum rauður, stundum grænn, stundum brúnn.

Er Guð karlkyns eða kvenkyns? Nafnorðið „Guð“ er karlkyns á sama hátt og nafnorðið „stóll“ er karlkyns og nafnorðið „hurð“ er kvenkyns. Guð sjálfur er aftur á móti hvorki karlkyns né kvenkyns. Guðsríkið er ekki af þessum heimi. Kynferði er aftur á móti bundið þessum heimi.

Mynd: Einar Bragi


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar