„Þetta er bara eins og að vera valinn í landsliðið, maður segir ekki nei"

david thorFjarðabyggð hefur leik með því að etja kappi við Vestmannaeyjabæ í Útsvari á RÚV annað kvöld.
Alger endurnýjun hefur orðið á liðinu sem nú er skipað þeim Davíð Þór Jónssyni, Hákoni Ásgrímssyni og Heiðu Dögg Liljudóttur

Gunnlaugur Sverrisson, forstöðumaður stjórnsýslu hjá Fjarðabyggð, segir að haldin hafi verið próf í vor og hópurinn hafi verið valinn út frá því.

„Ég held að þetta sé mjög öflugur hópur, svona án þess að við séum að setja of mikla pressu á þau. Jónsi (Jón Svanur Jóhannsson) hefur verið þeim til halds og trausts í undirbúningnum, en hann hefur verið hluti af liðinu frá því í upphafi þar til núna og þekkir þetta allt saman út og inn."


Ég er svolítið nörd

Davíð Þór Jónsson er guðfræðingur að mennt og starfandi héraðsprestur á Austurlandi. „Mér var ásamt öðrum boðið að þreyta prófið og þegar ég komst í liðið var það bæði heiður og skylda að segja já. Þetta er bara eins og að vera valinn í landsliðið, maður segir ekki nei við því. Ég vona bara að ég verði minni nýju heimabyggð til sóma.

Ég er langt frá því að vera alfræðiorðabók en ég er svolítið nörd. Mín sérsvið eru sennilega tungumál, menning, listir, landafræði og annað sem tengist menntun minni. Ég er verri í vísindum og íþróttum," segir Davíð Þór.

Aðspurður hvort þátttaka hans fyrir hönd Fjarðabyggðar geri hann ekki sjálfkrafa að austfirðingi segir hann: „Það er samfélagsins að ákveða hvenær ég er orðinn fullgildur, ekki mitt. Mitt er að gera skyldu mína. Ég kom hingað til að setjast að og verða hluti af samfélaginu, vondandi verður þátttaka mín ekki til þess að spilla fyrir því."

Eins og flestir vita kom Davíð Þór að spurningakeppninni Gettu betur um árabil, bæði sem spuringahöfundur og spyrill. Mun það gagnast honum á morgun?

„Það er ólíkt auðveldara að semja spurningarnar en að vita svörin. Reyndar eru allar spurningar auðveldar ef maður veit svarið. Kannski nýtist þessi reynsla mér eitthvað, það verður bara að koma í ljós."


Vill ekki hrella ömmu sína í beinni útsendingu

Heiða Dögg er mannfræðingur og starfsmaður Þjóðskrár Íslands. Þó svo hún hafi ekki jafn mikla reynslu af spurningakeppnum og Davíð Þór, þá er hún ekki með öllu óreynd.

„Ég keppti fyrir Norðfirðingafélagið í spurningakeppni átthagafélaganna. Hef annars ekki verið viðloðandi svona keppnir, nema að því leiti að sækja reglulega hið göfuga og sögufræga „pub quiz" Drekktu betur á Ölstofunni. Ég mun eftir fremsta megin reyna að sleppa því að vera einhvern dólg og vesen í beinni til að hrella ekki hana ömmu mína," segir Heiða Dögg.


Útsvarið leggst vel í mig

Hákon Ásgrímsson er frá Akureyri en búsettur á Reyðarfirði. Hann er verkfræðingur og starfar hjá fyrirtækinu Fluor sem þjónustar Alcoa Fjarðaál.

„Útsvarið leggst vel í mig, þetta er spennandi með algerlega nýju liði og verður vonandi skemmtilegt. Það verður að koma í ljós hvort ég reynist hafa einhverja sérþekkingu sem passar við spurningarnar sem við fáum."

Ljósm: Dagur Hilmarsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar