„Ég hef ekkert að fela eða hræðast"

odee10„Þetta er stærsta og umfangsmesta sýning sem ég hef haldið," segir listamaðurinn Odee, en hann opnar sýninguna Landvættir í Gallerý Fold á laugardaginn.

Odee, eða Oddur Eysteinn Friðriksson viðskiptafræðimenntaður og starfar hjá Alcoa Fjarðaáli, en er í fæðingarorlofi sem stendur. Hann býr á Eskifirði ásamt unnustu sinni Katrínu Ólafíu Þórhallsdóttur og tveimur sonum, þeim Ými Kalda og Þrym Blæ, sem er aðeins viku gamall.


Mikill heiður að fá að vinna fyrir Gallerí Fold

Odee vinnur mest svokallaða samrunalist, eða „digital fusion og visual mashup list", en verkin eru brædd í álplötur og húðuð með gloss filmu. Verkin eru gerð fyrir hann í New York.

Landvættir eru þema sýningarinnar. „Þegar ég var að skapa verk fyrir seríuna fann ég að hvert verk hefði einstakan persónuleika. Mér fannst eins og ég væri búinn að skapa einhverjar verur.

Ég fór því að kynna mér norræna goðafræði og hinar ýmsu kynjaverur til að reyna átta mig á hvað þetta gæti verið. Verkin eru gædd sterkum og sjálfstæðum persónuleika. Sem tengjast og mynda eina heild."

Það tók Odee níu mánuði að undirbúa sýninguna. „Það verða allavega 15 ný álverk á sýningunni sem og eitthvað af eftirprentunum og próförkum (skissum). Meðal annars verða tvö tveggja metra álverk sem þurfti að fá send með gámi yfir Atlandshafið.

„Ég myndi segja að þetta væru kaflaskipti í minni listsköpun þar sem verkin eru unnin sem ein heild, sería. Sýningin Samruni, sem ég hélt á Eskifirði í sumar, gekk eiginlega aðeins of vel, það seldust of mörg verk!

Ég fékk því algert panikk um hvort ég næði að klára gera ný verk fyrir sýninguna í Fold, auk þess sem ég lenti í því að fá tvö skemmd verk að utan, þannig að ég þurfti að fá ný. En eftir þrotlausa vinnu og gott skipulag er allt klárt í dag, og öll verk tilbúin fyrir sýningu.

Mér finnst mikill heiður að fá að vinna með Gallerí Fold sem er virtasta galleríi og uppboðshúsi landsins. Ég er sérstaklega spenntur yfir því hvernig stóru verkunum verður tekið, en mig langar að sýna þau á flugvellinum á Egilsstöðum eftir sýninguna í Fold."


Byrjaður á næstu seríu

Reglulega kemur upp sú umræða að verk Odee séu stolin. Hann segir að þegar öllu er á botninn hvolft skapi það sér aðeins aukna athygli og umfjöllun.

„Þetta virðist vera þannig að einhverjir listamenn komast að því að ég nota efni frá þeim í mína listsköpun. Þeir senda mér þá skilaboð um að fjarlægja verkin þeirra úr mínum verkum, sem ég neita alfarið því ég lít á þetta sem tjáningarfrelsi.

Í kjölfarið pósta þeir á síðurnar sínar að einhver gaur á Íslandi sé að stela efninu þeirra, þá fæ ég hótanir, skammir og innlit frá aðdáendum þeirra. Mér er nokkuð sama og hunsa þetta alfarið. Ég er bara að skapa list og þeir sem skoða verkin mín sjá að þetta eru ný og sjálfstæð verk. Ég hef ekkert að fela eða hræðast."

Odee heldur ótrauður áfram við að skapa list. „Ég er meira að segja byrjaður á næstu seríu. Það stefnir allt í að næsta formlega sýning verði erlendis á næsta ári og því gæti vel verið að ég þyrfti að vera úti í nokkrar vikur til þess að sinna verkefnum þar."

odee1odee2odee3odee4odee10


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar