90% ætla að ferðast innanlands

Könnun Ferðamálastofu um ferðaáform Íslendinga innanlands gefur til kynna að níu af hverjum tíu Íslendingum ætli að ferðast innanlands í sumar. Það er nokkru hærra hlutfall en fyrri kannanir Ferðamálastofu hafa sýnt.

feralangur3.jpg

 

Rúmlega 60% ætla eingöngu að ferðast innanlands, tæplega helmingur ætlar að eyða fleiri gistinóttum á ferðalögum innanlands í sumar en á síðasta ári og tveir þriðju ætla að fara að minnsta kosti þrjár ferðir.

 

Samkvæmt könnuninni, sem félagið MMR gerði, ætlar fjórðungur landsmanna að ferðast bæði innanlands og utan og 5% eingöngu utanlands. Átta prósent ætla hins vegar ekki að ferðast. Þannig ætla 3 af hverjum 10 að ferðast utanlands sem eru vísbendingar um verulegan samdrátt miðað við fyrri kannanir.

 

Flest ferðalög munu eiga sér stað seinni hlutann í júlí en þá ætla þrír af hverjum fimm landsmanna að ferðast. Helmingur ætlar hins vegar að ferðast fyrri partinn í júlí eða ágúst, en fjölmargir þó á öðrum tímabilum.

 

Þrír af hverjum fimm ætla að gista í tjaldi, fellihýsi eða húsbíl, tveir af hverjum fimm hjá vinum og ættingjum og þriðjungur í sumarhúsi í einkaeigu eða orlofshúsi félagasamtaka. Suðurland og Norðurland verða fjölsóttustu landshlutarnir, samkvæmt könnuninni og sú afþreying sem landsmenn eru líklegastir að greiða fyrir er sund, jarðböð, veiði, söfn og sýningar.

 

Fjölmargir þættir hafa áhrif á ákvarðanatöku þegar ferðalög landsmanna eru annars vegar, s.s. fjölskylda og vinir, efnahagur, veðrið, viðburðir og áhugi eða tengsl við stað. Náttúran, veðurfarið og persónuleg tengsl eru hins vegar þeir þættir sem einkum hafa áhrif við val á ákvörðunarstað.  

 

Þegar spurt var hvaða þrír staðir eða svæði fólki fyndist mest spennandi nefndu flestir Vestfirði, eða tæplega helmingur svarenda. Suðurland og Norðurland eystra komu þar nokkuð á eftir.

 

Það sem stendur einkum í vegi fyrir að landsmenn ferðist meira innanlands er að þeim finnst það of dýrt (41%) eða þeir geta það ekki vegna vinnunnar (35%). Um 20% nefna veðrið og svipað hlutafall að þeir hafi ekki tíma.  

 

Könnunin var unnin sem net- og símakönnun 20.-29. apríl og var aðferðafræðinni skipt eftir aldurshópum. Spurningar fyrir aldurshópinn 18-67 ára voru lagðar fyrir í spurningavagni MMR og var svarað á Internetinu. Könnunin náði til 1400 manna úrtaks úr þjóðskrá og var svarhlutfall 60,9%. Aldurshópurinn 68-80 ára var spurður símleiðis, byggt var á 135 manna úrtaki og var svarhlutfall 65,2%. Framkvæmd og úrvinnsla var í höndum MMR.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.