Anna Heiða í Blómahorninu þakkar fyrir sig

Anna Heiða Gunnarsdóttir hefur í um 20 ár haft umsjón með sumarblómum og öðrum gróðri fyrir Austfirðinga. Frá 2010 hefur hún verið manneskjan á bakvið Blómahornið á Reyðarfirði. Nýir rekstraraðilar hafa nú tekið við.

Anna er ástríðufullur garðyrkjumaður sem uppgötvaði ung ást sína á náttúrunni. Það kemur því ekki á óvart að hún hafi lokið námi í Garðyrkjuskólanum á Reykjum.

Árið 2000 byrjaði hún að vinna hjá Sólskógum er nú og starfsemi á Reyðarfirði hófst 2003, frá 2010 undir merkjum Blómahornsins eftir að Anna Heiða tók við rekstrinum. Tækifærið var óvænt en eftir nokkurra daga fjölskyldufund ákvað Anna Heiða að slá til og kaupa reksturinn, hafandi lengi langað til að rækta blóm eftir eigin smekk.

Hún lagði mikla vinnu í að byggja stöðina og plönturnar upp eins og hún vildi. Í gegnum árin byggði hún upp góðan hóp með sér, úr fjölskyldunni og sumarstarfsfólki sem lagði hart að sér frá mars fram í júní þegar eftirspurnin og vinnan er mest.

En þar með var verkunum ekki lokið. Á haustin þurfti að umpotta harðgerðum plöntum og óseldum blómum og trjám til að undirbúa þau fyrir kuldann. Blómapottana sem viðskiptavinir komu með til hennar þurfti líka að þvo, þurrka og geyma, því í Blómahorninu hefur alltaf verið endurunnið eins og hægt er.

Anna hafði ánægju af vinnunni. Hún ætlaði sér ekkert sérstaklega að selja Blómahornið og bjóst reyndar ekki við að geta það, en tilviljun réði því að dag einn stóð viðskiptavinur í búðinni og sagði: „ég skal kaupa hana.“ Þannig kom það til að Blómahornið fékk nýjan eiganda í haust, Kristínu Snorradóttur, sem ætlar að reka þar sína eigin stöð.

Viðskiptavinir Önnu í gegnum árin hafa komið víða af Austfjörðum. „Ég vil þakka mínum dyggu viðskiptavinum af öllu hjarta fyrir að hafa fylgt mér og stutt í gegnum árin - ekkert af þessu hefði verið mögulegt án ykkar,“ segir hún að lokum.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar