Austfirðingagigg í Hafnarfirði: Eigum mikið af tónlistarfólki

Hljómsveitir og tónlistarfólk sem á það sameiginlegt að hafa alist upp á Austurlandi koma fram á sérstökum tónleikum í Bæjarbíói í Hafnarfirði á laugardagskvöld. Skipuleggjandi tónleikanna segir gaman að sjá að alltaf komi nýtt tónlistarfólk frá svæðinu.

Í fyrra voru haldnir tónleikar með hljómsveitum sem tengdust Austurlandi í minningu Ingvars Lundbergs, fyrrum hljómborðsleikara SúEllenar. Uppselt var á þá tónleika og segir Guðmundur R. Gíslason, söngvari sveitarinnar og maðurinn að baki tónleikunum, að þá hafi fundist áhugi á að gera meira.

„Það var ákall frá brottfluttum Austfirðingum að hafa vettvang til að hittast. Áður fyrr voru Austfirðingaböll, sem lögðum af og því miður féll þorrablótið niður í ár,“ segir Guðmundur.

SúEllen kemur fram um helgina en einnig er búið að auglýsa Hlyn Ben, Austurland að Glettingi, Aldísi Fjólu og Dundur. „Sem betur fer eigum við mikið af tónlistarfólki og þess vegna vonum við að svona tónleikar geti orðið árlegir. Þetta er flott dagskrá og síðan er kominn leynigestur í hópinn.“

Í hópnum eru bæði hljómsveitir sem koma sjaldan fram, eins og Austurland að Glettingi, en líka Austfirðingar sem eru nýbúnir að senda frá sér nýtt efni, eins og Dundur eða Aldís Fjóla, sem átti lag í toppsæti vinsældalista Rásar 2 á aðventunni.

„Sem betur fer er fólk enn að gefa út þannig við getum haldið tónleika með nýju efni. Það skiptir öllu máli að fá nýtt efni, þannig þetta sé ekki bara SúEllen aftur og aftur. Þetta sýnir að austfirsk tónlist er lifandi og á erindi,“ segir Guðmundur.

Ágóði tónleikanna rennur í minningarsjóð Ingvars Lundberg en hann var stofnaður til að styrkja ungt fólk í tónlist og hljóðfræðum. Til stendur að úthluta úr sjóðnum í fyrsta sinn síðar á þessu ári.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar