Austurglugginn 20 ára
Vikublaðið Austurglugginn, sem gefinn er út af Útgáfufélagi Austurlands líkt og Austurfrétt, fagnar tuttugu ára afmæli sínu um þessar mundir.Fyrsta tölublað Austurgluggans kom út 31. janúar árið 2002. Blaðið varð til eftir að Austri, sem tengdist Framsóknarflokknum á Fljótsdalshéraði og Austurland, málgagn Alþýðubandalagsins í Neskaupstað, lögðu upp laupana. Markmiðið var að koma á fót óháðu og öflugu landshlutablaði.
Á forsíðu blaðsins var sagt frá áformum nýrra eigenda Eiða um alþjóðlegt mennta- og menningarsetur þar sem og stofnun Kjarvalsstofu.
Þar má einnig finna mola um upptöku James Bond myndar á Jökulsárlóni og því að nýlega hafi Café Margret opnað fyrir gestum í reisulegu bjálkahúsi ofan við þjóðveginn við Breiðdalsvík. Einnig kemur fram að Malarvinnslan hafi hlotið Þorrann fyrir framlag til atvinnumála.
Fyrsta fréttin inni í blaðinu er um að Verkmenntaskóli Austurlands hafi í fyrsta sinn í sögunni komist í sjónvarpshluta Gettu betur, en sem kunnugt er náði skólinn þeim árangri á ný nýverið. Þjálfari liðsins var Jón Knútur Ásmundsson, þá kennari við skólann en síðar ritstjóri Austurgluggans.
Farið er yfir stöðu ferðamála í fjórðungnum þar sem bundnar eru vonir við nýja Norrænu og beint flug LTU milli þýsku borgarinnar Düsseldorf og Egilsstaða um sumarið. Opnugrein er um stöðu og framtíðaráform í fiskeldi, fréttaskýring um menningarstarf í fjórðungnum með áherslu á Seyðisfjörð og staðan tekin á undirbúningi fyrir álver í Reyðarfirði.
Fyrsti ritstjóri blaðsins var Brynjólfur Þorvarðarson, Katrín Oddsdóttir blaðamaður og Erla Traustadóttir framkvæmda- og auglýsingastjóri.