Íbúar Egilsstaða taki til
Á vef sveitarfélagsins Fljótsdalshéraðs er vitnað í grein Helga Hallgrímssonar náttúrufræðings á Egilsstöðum um umgengni í og við þéttbýlið. ,,Í Austurglugganum, sem kom út fyrir viku, skrifar Helgi Hallgrímsson náttúrufræðingur á Egilsstöðum þarfa grein, þar sem hann ávítar íbúa, fyrirtæki og sveitarfélagið fyrir slæglega umgengni og hvetur alla aðila til að girða sig í brók, taka til í kring um sig og ganga vel um einkalóðir og opin svæði.
Þarna er á ferðinni þörf ábending til allra. Í sama blaði kemur fram að sveitarfélagið ver á annan tug milljóna á ári í hreinsun á rusli á opnum svæðum í sveitarfélaginu. Þetta eru vissulega blóðpeningar og mætti þar spara verulega ef allir tækju sig saman og breyttu sinni umgengni. Hvað eru þeir aðilar t.d. að hugsa sem henda plastpokum, járnarusli, timbri og jafnvel handlaugum og klósettum á garðúrgangssvæðinu á bökkum Eyvindarár, eða grýta flöskum, dósum og bréfarusli út um bílgluggana. Er nema von að Helgi brýni sinn beitta penna. Mikilvægt er að allir taki höndum saman og láti ekki spyrjast að hér búi eintómir umhverfissóðar,“ segir á vef Fljótsdalshéraðs.