Bríet, Maus og Jón Arngríms og Valli Skúla á Bræðslunni í ár
Bríet, Maus, Karlotta, Una Torfa, Jói P. & Króli, Jón Arngrímsson og Valgeir Skúlason og loks Laddi eru tónlistarfólkið sem kemur fram á tónlistarhátíðinni Bræðslunni á Borgarfirði eystra í ár.Hefð hefur skapast fyrir því að ungt tónlistarfólk stígi fyrst á svið á hátíðinni og fulltrúi þess að þessu sinni er Karlotta.
Jói P. og Króli eru einnig í yngri kantinum, sem og Bríet sem var á Bræðslunni 2022. Una Torfa kom austur í fyrra og söng á föstudagsforleiknum en stjarna hennar hefur risið stöðugt síðan.
Lítið hefur farið fyrir rokkhljómsveitinni Maus síðustu ár en hún snýr aftur og heldur upp á 30 ára afmæli sitt á hátíðinni í ár.
Heimamenn eiga sína fulltrúa. Jón Arngrímsson og Valgeir Skúlason munu flytja borgfirsk ættjarðarlög sem þeir hafa samið í gegnum árin. Loks mun Laddi flytja öll sín helstu lög ásamt hljómsveit.
Bræðslan verður haldin laugardaginn 29. júlí. Hefð hefur skapast fyrir mikilli dagskrá á Borgarfirði dagana á undan sem nánar verður tilkynnt er nær dregur. Forsala á tónlistarhátíðina sjálfa hefast klukkan 10 á föstudag 10. mars á vef hátíðarinnar, braedslan.is.