Bræðslan 2009: Íslenskt – já takk

Nokkrir miðar eru eftir á tónlistarhátíðina Bræðsluna sem fram fer á Borgarfirði eystri á laugardag. Með viðburðum sem í raun eru utan dagskrár teygir gleðskapurinn sig yfir þrjá daga.
Image„Undirbúningur gengur ljómandi vel, við vorum að smíða sviðið,“ sagði Bræðslustjórinn Guðmundur Magni Ásgeirsson þegar Austurglugginn heyrði í honum í dag. Í seinustu viku var tekið til í Bræðslunni sem er notuð sem geymsla „fyrir stóra hluti, báta og fleira skemmtilegt“ yfir vetrartímann. „Við hagræðum þessum hlutum einhvers staðar við hliðina á húsinu. Síðan þrífum við gólfið og búum til svið úr því sem er til í kringum okkur.“

Til aðstoðar við smíðina eru margar vinnufúsar hendur. „Brottfluttu Borgfirðingarnir og þeir sem eru ættaðir héðan eru farnir að týnast inn. Þeir vappa í kringum Bræðsluna til að athuga hvort þeir fái ekki að gera eitthvað svo þeir þurfi ekki að borga sig inn. Það er jákvætt að menn skuli vilja að vinna fyrir miðanum í stað þess að ætlast til að fá eitthvað fyrir ekki neitt.“

Tónleikarnir í Bræðslunni verða á laugardagskvöld en þar koma fram Páll Óskar og Monika, Hinn íslenzki þursaflokkur, Jónas Sig mætir á svið með B.Sig og loks er það Bróðir svartúlfs, sem vann Músíktilraunir í ár. Til viðbótar verða tónleikar í Álfacafé og félagsheimilinu Fjarðarborg á fimmtudag og föstudag. „Þetta verður íslenskt – já takk,“ segir Magni. „Annað hvert ár höfum við verið með alíslenska Bræðslu en ætli við verðum ekki að finna einhverja útlendinga fyrir næsta ár.“

Í fyrra var það Írinn Damien Rice sem var aðalaðdráttaraflið. „Við reiknum með að það verði um eitt þúsund manns í firðinum, samt ekkert í líkingu við í fyrra.“

Í morgun voru um tvö hundruð miðar eftir á Bræðsluna. „Miðasalan hefur gengið vel, sérstaklega í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu. Við höfum aldrei rekið Bræðsluna sem gróðastarfsemi. Allt umfram núllið er skemmtilegt.“

Magni vill árétta við þá sem keypt hafa miða í gegnum midi.is að þeir þurfi ekki að fara suður til Reykjavíkur til að sækja miðann. „Þeir þurfa bara að mæta með kvittunina og góða skapið.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.