Davíð Þór predikaði á Hjaltastað

Davíð Þór Jónsson, guðfræðinemi, rithöfundur og spurningahöfundur, flutti predikun dagsins við messu í Hjaltastaðakirkju á Fljótsdalshéraði í morgun.

 

ImageDavíð Þór lagði í predikuninni út af guðspjalli dagsins, Mattheusi 5:13-16 þar sem segir: „Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? Það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum.“

Erfitt er samt að tala um manninn sem salt jarðar og þykir líkingin á margan hátt flókin og illskiljanleg. Of mikið salt fer illa í jörðina.

Davíð fór þess vegna lengra í textann þar sem talað er um ljós heimsins. „Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist. Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker, heldur á ljósastiku, og þá lýsir það öllum í húsinu. Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna, að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar, sem er á himnum.“

Davíð Þór lagði út af orðunum á þann veg að maðurinn sé ljós heimsins og eigi að láta ljós sitt skína með góðum verkum. Við verðum metin af orðum okkar og gjörðum. Minna máli skipti hvað við hugsum eða hverjar tilfinningar okkar séu.

Messan var haldin í tilefni ættarmóts Rauðholtsættarinnar sem Davíð er af. Húsfyllir var í kirkjunni en nokkrir utanaðkomandi gestir mætti til kirkju.

Predikuninni lauk guðfræðineminn á að vitna í ljóð Tómasar Guðmundssonar, Heimsókn, en þar segir meðal annars:

Því meðan til er böl sem bætt þú gast,
og barist var á meðan hjá þú sast
er ólán heimsins einnig þér að kenna…

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.