Drekka má heita vatnið beint af krana

Heitt vatn úr borholum Hitaveitu Egilsstaða og Fella (HEF) í Urriðavatni er svo gott að það hefur hlotið vottun sem neysluhæft drykkjarvatn og er þar með vel nýtanlegt til matvælaframleiðslu. Þetta er sjaldgæf staða á Íslandi og aðeins vitað um sambærileg gæði heits vatns úr nokkrum af heitavatnsuppsprettum Akureyringa.

vatn.jpg

 

Guðmundur Davíðsson, framkvæmdastjóri HEF, segir að Orkustofnun hafi laust eftir árið 2000 látið taka sýni hjá nokkrum hitaveitum í landinu og sent þau til Svíþjóðar til rannsóknar.  Þar gilda einhver ströngustu ákvæði um gæði neysluvatns sem um getur. Vatnið frá HEF uppfyllti þau skilyrði fullkomlega. Guttormur Metúsalemsson, vinnslustjóri hjá MS á Egilsstöðum, vildi vita hvort unnt væri að blanda heitu vatni beint í ostagerð hjá fyrirtækinu og var í kjölfarið farið aftur í sýnatöku. Allar niðurstöður staðfesta að heita vatnið sé afbragðsgott til neyslu og matvælaframleiðslu.

 

,,Brennisteinsvetnismagn í heitu vatni liggur víða á bilinu 6-7%, en magnið í heita vatninu úr Urriðavatni er 0,2%,“ segir Guðmundur.,, Það er langt innan allra mengunarmarka. Þetta stafar af því að vatnið okkar er komið svo langt að. Við erum ekki á eldvirku svæði og alls staðar á virkum svæðum verður brennisteinsvetnið svo miklu hærra. Vatnið sem við erum að vinna er rigningarvatn sem fellur ofan í jörðina og hitnar í jarðmöndli og stígur upp aftur, án þess að komast í snertingu við eldvirkni. Jarðvísindamenn hafa enda sagt okkur að við eigum ekki von á að geta fundið heitara vatn en upp undir 80 gráður, líkt og við höfum þegar fundið.“ Sá hiti er fullnægjandi og segir Guðmundur kjörhita liggja á milli 70 og 80 gráða. Það fari mun betur með allan búnað og miklu minni útfelling sé í vatninu. Þrátt fyrir hið litla brennisteinsmagn vatnsins sé það þó nægjanlegt til að éta upp það súrefni sem gæti komið inn í lagnir, því brennisteinsvetni vinni á móti tæringu af upptöku súrefnis.  Gæði vatnsins eru staðfest af Orkustofnun og Heilbrigðiseftirliti Austurlands. Guðmundur segir að á vorin, þegar afbræðsluvatn hefur mengað kalt neysluvatn íbúa á svæðinu hafi HEF bent fólki á að taka heitt vatn og kæla í ísskápnum til neyslu.

 

HEF tók yfir rekstur vatnsveitu 2005. Síðan hefur verið leitað að nýjum vatnsbólum fyrir þéttbýlið í Fellabæ og á Egilsstöðum. Nú er búið að kaupa land við Köldukvísl í Eyvindarárdal og stefnt að því að virkja þar og koma í samband fyrir árslok. Kaldakvísl rennur í Eyvindará og er vænlegt svæði, um 7,5 km ofan við Selbrekkubyggðina á Egilsstöðum.  Síðasta rúma áratuginn hafa komið aðvaranir frá Orkustofnun og ISOR um að vatnsból á Egilsstaðanesi séu varhugaverð vegna staðsetningar. Stór hluti Egilsstaðabæjar er inni á nærsvæði vatnsbólanna, gamlir urðunarstaðir eru í rennslisstefnunni, Egilsstaðaflugvöllur er við hlið bólanna og mikil ræktun er á landi í kring með tilheyrandi áburðargjöf.  Gömlu vatnbólin yrðu rekin samhliða nýju vatnsbóli við Köldukvísl fyrsta árið en að því búnu yrði þeim lokað. Unnið er að útboðsgögnum og verður verkið væntanlega boðið út seint í vor.  Heildarkostnaðaráætlun með stöðvarhúsi og tengingum gerir ráð fyrir um 200 milljónum króna.

 

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar