Dávaldur á Norðfirði
Á morgun, uppstigningardag, verður á dagskrá Rásar 1 þátturinn „Dávaldurinn í þorpinu“ í umsjón Jóns Knúts Ásmundssonar. Í þættinum er fjallað um komu hins dularfulla dávalds, Martin Sommers, til Norðfjarðar haustið 1955 en um þennan atburð skrifaði Jónas Árnason, annar og annars konar dávaldur, smásöguna Mr. Sommers sem birtist í bókinni Veturnóttakyrrum árið 1957. Í þættinum er jafnframt fjallað um rithöfundinn og blaðamanninn Jónas Árnason sem stundum hefur fallið í skuggann af leikskáldinu og textahöfundinum Jónasi. Meðal þeirra sem rætt er við eru Kristján Jóhann Jónsson bókmenntafræðingur og Óskar heitinn Björnsson frá Norðfirði. Viðtalið við Óskar var tekið í fyrrahaust en hann var fyrirmynd Grímsa, einnar aðalsöguhetju sögunnar um Mr. Sommers og óhætt er að segja að hann fari á kostum. Þá leikles Sigurður Ingólfsson hluta sögunnar og leikin er tónlist eftir tónskáldið Erik Satie og blúsjöfurinn Skip James. Þátturinn hefst klukkan 13.