Eistnaflug: Árshátíð þeirra sem ekki nenna að hlusta á Stuðmenn

Rokkhátíðin Eistnaflug hefst í Neskaupstað á morgun. Gestir hátíðarinnar hafa aldrei verið fleiri og búist er við að uppselt verði á hana.

 

Image„Þetta er árshátíð fyrir okkur sem nennum ekki að hlusta á Stuðmenn,“ segir Stefán Magnússon, skipuleggjandi hátíðarinnar. „Við erum með allar stærstu rokksveitir landsins nema Dr. Spock,“ segir hann. Söngvari sveitarinnar, Óttarr Proppé, er samt á svæðinu með HAM sem kemur fram í kvöld. „Ég reikna með að þetta verði einu HAM tónleikarnir á árinu. Fyrirliðarnir skemmtu sér svo vel að þeir ákváðu að kýla aftur á Eistnaflug.“

Fyrstu gestirnir mættu á tjaldsvæðið á Norðfirði á mánudag. Þá höfðu verið seldur um sex hundruð miðar sem er 150 miðum fleira en seldust alla hátíðina í fyrra. Alls eru átta hundruð miðar í boði á hátíðina sem hefur vaxið stöðugt síðan hún var fyrst haldin árið 2005. „Við kjaftfyllum Egilsbúð. Við komum ekki fleiri í húsið. Það er frábært á meðan hátíðin rekur sig svona. Við finnum fyrri meiri og meiri áhuga erlendis frá sem þýðir fleiri gestir. Yfirleitt fáum við bæði hljómsveitir og fólk sem kynnist íslenskum hljómsveitum á erlendum hátíðum. Það spyrst fyrir um hvað sé að gerast á Íslandi og fær það svara að þetta sé eina hátíðin með viti.“

Meðal stærstu nafnanna á hátíðinni í ár má auk ham nefna Mínus, Sólstafi, Brain Police, Mammút og Agent Fresco. Síðastnefndu tvær hljómsveitirnar spila töluvert léttari tónlist en þá sem hátíðin er þekkt fyrir. „Það er fjarri því að þetta sé bara blóð og niðurgangur upp um alla veggi. Léttari sveitir hafa alltaf fengið að fljóta með ef þær hafa verið nógu góðar en yfirleitt bera á þyngri böndunum. Mammút er spiluð á Bylgjunni en við förum ekki í léttari tónlist en það.“

Stefán hvetur áhugasama til að kanna stöðu miða á www.midi.is þar sem uppselt kunni að verða á hátíðina. Kæruleysi sé að ætla sér að kaupa miða í Egilsbúð. Nánari upplýsingar um hátíðina eru á www.eistnaflug.is.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar