Færði björgunarsveit Gerpis gjöf fyrir að bjarga ömmu sinni

Ung stúlka í Neskaupstað, Emma Sólveig Loftsdóttir, kom færandi hendi í hús björgunarsveitarinnar Gerpis fyrir skömmu og afhenti liðsmönnum tuttugu þúsund krónur sem hún hafði safnað á eigin spýtur. Gjöfin var þakklætisvottur fyrir að sveitin bjargaði ömmu hennar úr snjóflóði á síðasta ári.

Allar slíkar gjafir koma í góðar þarfir hjá björgunarsveitum landsins og kunni Daði Benediktsson, formaður Gerpis, Emmu miklar þakkir fyrir gjöfina en meðfylgjandi mynd var tekin af því tilefni.

Nóvember og desember eru annars annasamir tímar í fjáröflun hjá björgunarsveitarfólki um land allt. Sala Neyðarkallsins fer fram í nóvember, jólatréssala í byrjun desember og strax að loknum Aðfanga- og Jóladegi fer allt á fullt að undirbúa flugeldasöluna um áramótin.

Gerpismenn létu sig þó ekki muna um að heimsækja leikskólabörnin á Eyrarvöllum samhliða öllu öðru fyrr í vikunni og færðu þar öllum börnunum endurskinsmerki að gjöf en mikilvægi slíkra merkja óumdeilanlegt yfir dimmasta tíma ársins. Lauk þeirri heimsókn svo með því að börn og fullorðnir sungu saman nokkur vel valin jólalög.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.