Fékk fimm manns í félagið á fyrsta kynningarfundi af fjórum
„Það mættu 19 manns á þessa fyrstu kynningu í morgun og það er gleðilegt að segja frá því að af þeim skráðu sig fimm umsvifalaust í félagið okkar,“ segir Örn Ragnarsson, formaður Félags trérennismiða á Íslandi, en hann hélt kynningu á Egilsstöðum í morgun.
Örn er á flakki um landið að kynna trérennismíði sem hann sjálfur segir aldeilis kjörleið til að stytta stundirnar og stunda iðn heimavið. Það ekki síst fyrir þá sem komnir eru á eftirlaun en vilja hafa eitthvað mannbætandi fyrir stafni en kynningin í morgun og fjórar aðrar sem fyrirhugaðar eru eru aðallega ætlaðar eldri borgurum. Framundan er kynning á Djúpavogi áður en hann heldur í Fjarðabyggð þar sem tvær kynningar til viðbótar fara fram. Í kjölfarið verða námskeið í greininni auglýst hjá félaginu.
„Það er langt síðan slíkar kynningar fóru fram af okkar hálfu en ég tók við sem formaður hér síðasta haust og það er ein af áherslum okkar að kynna starfsemina og koma á framfæri. Ég ákvað því að byrja úti á landi og hef þegar verið á Stykkishólmi, Ólafsvík og Akureyri og nú er komið að Austurlandinu.“
Hér fyrir austan er Örn svo að segja á heimavelli því hann bjó lengi vel á Eiðum áður en hann flutti suður á höfuðborgarsvæðið. „Hingað er gott að koma þó reyndin sé að ég kannist ekki lengur við nokkurn skapaðan mann. Enda ein 27 ár síðan ég flutti brott.“
Örn sýnir áhugasömum handbrögðin við trérennismíði sem hann segir aldeilis ljúfa iðju þegar aldurinn færist yfir og fólk langi að finna sér áhugamál. Mynd Félag trérennismiða