Flugslys í Vopnafirði
Lítil fjögurra manna Cessna flugvél brotlenti kl. rúmlega fjögur í dag nálægt Selá í Vopnafirði, um 13 km frá þéttbýlinu. Tveir voru um borð í vélinni. Björgunarsveitin Vopni og Slökkvilið Vopnafjarðar voru kölluð á staðinn, lögregla fór einnig frá Egilsstöðum á vettvang og þyrla Landhelgisgæslunnar var sett í viðbragðsstöðu en var ekki send af stað. Sjúkraflugvél frá Akureyri flaug á Vopnafjörð. Engar upplýsingar liggja fyrir um afdrif þeirra sem í vélinni voru.
Vélin var bókuð inn til lendingar á Tungubökkum í Mosfellsbæ kl. sex síðdegis og hafði lagt upp frá Vopnafirði kl. fjögur í dag. Þangað kom hún tveimur tímum fyrr. Tuttugu mínútur yfir fjögur barst flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík tilkynning frá Neyðarlínunni um atvikið.Rannsóknarnefnd flugslysa er á leið á staðinn.
Mynd: Vopnafjörður.