Framtíðin reifuð á Breiðdalsvík
Málstofa um byggðamál stendur nú yfir í Gamla kaupfélagshúsinu á Breiðdalsvík og aðalfundur Vaxtarsamnings Austurlands hefst þar kl. 16. Aðalfundur Þróunarfélags Austurlands var haldinn á sama stað í morgun. Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa voru veitt hvatningarverðlaun Þróunarfélagsins, en ekki hafa borist upplýsingar um til hvers þau fóru í ár.
Í málstofu um byggðamál ræddi Páll S. Brynjarsson, sveitarstjóri Borgarbyggðar um sjónarmið sveitarfélaga við mótun og framkvæmd byggðastefnu. Páll Baldursson, sveitarstjóri Breiðdalshrepps, fjallaði um framtíðarsýn Vaxtarsamnings Austurlands og Jónína Rós Guðmundsdóttir, nýr þingmaður Austfirðinga, velti upp stöðu Austurlands í framtíðinni. Hafliði H. Hafliðason, verkefnisstjóri hjá Þróunarfélaginu stýrði málstofunni.