Fyrirhuguð þingmál á 137. löggjafarþinginu

Ríkisstjórnin áformar að flytja 38 mál á 137. löggjafarþinginu sem nú er nýhafið. Þetta má lesa úr þingmálaskrá sem lögð var fram um leið og forsætisráðherra flutti stefnuræðu sína. Flest mál verða flutt af hálfu viðskiptaráðherra, 8 talsins. Athygli vekur að engin flutningsmál eru fyrirhuguð hjá samgönguráðuneyti á 137. löggjafarþinginu. Málaflokkar ráðuneytisins eru sveitastjórnarmál, fjarskipta- og póstmál, flugmál, siglinga-, hafna- og vegamál, umferðarmál, Evrópumál og jöfnunarsjóðsmál. Ekki eru heldur nein mál fyrirhuguð til flutnings frá iðnaðarráðuneyti, sem fjallar um öll orkumál, ferðamál, auðlindir á hafsbotni og nýsköpun, svo eitthvað sé nefnt.

skjaldarmerki_slands.jpg

Í  eftirfarandi skrá er getið um þau lagafrumvörp, sem unnið er að í einstökum ráðuneytum og áformað er að flytja á 137. löggjafarþingi. Flutt kunna að verða fleiri frumvörp en getið er og atvik geta einnig hindrað flutning einstakra frumvarpa. Jafnframt eru taldar upp tillögur til þingsályktunar, sem ætlunin er að flytja.

   

Forsætisráðuneytið

Frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur. Í frumvarpinu verður að finna ákvæði um fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu, sem efnt er til í kjölfar ákvörðunar Alþingis eða ríkisstjórnarinnar, en einnig ef til hennar kemur vegna ákvæða stjórnarskrárinnar (breyting á kirkjuskipan o.fl.).

Frumvarp til laga um ráðgefandi stjórnlagaþing. Í frumvarpinu verður að finna ákvæði um val á fulltrúum, skipulag og verkefni stjórnlagaþings.

Frumvarp til laga um breyting á ýmsum lögum vegna flutnings verkefna milli ráðuneyta. Í frumvarpinu verður að finna ákvæði um þær breytingar á heitum og verkefnum ráðuneyta sem er að finna í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna og koma eiga til framkvæmda á árinu 2009.

   

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið

Frumvarp til laga um breytingar á lögum um kosningar til Alþingis nr. 24 16. maí 2000. Um er að ræða breytingar á lögunum svo unnt sé að taka upp svokallað persónukjör þar sem kjósendur geti haft meiri eða minni áhrif á val á frambjóðendum í kosningum.  

Frumvarp til laga um breytingar á lögum um kosningar til sveitarstjórna nr. 5 6. maí 1998.  Frumvarpið gerir ráð fyrir breytingu á lögum um kosningar til sveitarstjórnar og að tekið verði upp persónukjör, líkt og í kosningum til Alþingis.

   

Félags- og tryggingamálaráðuneytið

Frumvarp til laga um aðild starfsmanna við samruna hlutafélaga yfir landamæri.

Í frumvarpinu verða lagðar til breytingar sem fela í sér innleiðingu á 16. gr. tilskipunar nr. 2005/56/EB, um samruna hlutafélaga yfir landamæri

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um tímabundna ráðningu starfsmanna.Í frumvarpinu verða lagðar til breytingar á lögunum að teknu tilliti til athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA á innleiðingu tilskipunar nr. 1999/70/EB, um tímabundnar ráðningar, hér á landi.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um starfsmenn í hlutastörfum.

Í frumvarpinu verða lagðar til breytingar á lögunum að teknu tilliti til athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA á innleiðingu tilskipunar nr. 97/81/EB, um hlutastörf, hér á landi.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar.

Í frumvarpinu verður lögð til breyting á lögunum sem felur í sér breytingu á frítekjumarki vegna fjármagnstekna elli- og örorkulífeyrisþega

   

Fjármálaráðuneytið

Frumvarp til laga um stofnun hlutafélags til að stuðla að endurskipulagningu þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja. Frumvarpið er liður í vinnu að endurreisn bankakerfisins. Það var upphaflega flutt á síðasta þingi en verður endurflutt.

Frumvarp til lokafjárlaga 2007. Frumvarpið var upphaflega flutt á síðasta þingi en verður endurflutt.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Kjararáð. Í athugun er að gera þá breytingu að forræði Kjararáðs nái til fleiri ríkisaðila en nú er.

Frumvarp til laga um heimild til að veita ríkisábyrð á lánum til að styrkja gjaldeyrisforðann o.fl.

Skýrsla um áætlun í ríkisfjármálum 2009 til 2013. Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna er ákveðið að áætlun þessi verði lögð fram til kynningar. Í henni er gerð grein fyrir þeim aðgerðum í ríkisfjármálum sem taldar eru nauðsynlegar til að ná jöfnuði í ríkisfjármálum á næstu árum og standa við forsendur aðstoðaráætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Frumvarp til breytinga á ýmsum skattalögum o.fl. vegna tekjuöflunar ríkissjóðs. Gert er ráð fyrir á grundvelli áætlunar um jöfnuð í ríkisfjármálum verði nauðsynlegt að auka tekjur á þessu ári.

Frumvarp til breytinga á ýmsum lögum til lækkunar á ríkisútgjöldum 2009. Gert er ráð fyrir á grundvelli áætlunar um jöfnuð í ríkisfjármálum verði nauðsynlegt að draga úr útgjöldum ríkissjóðs á þessu ári.

   

Heilbrigðisráðuneytið

Frumvarp til laga um heilbrigðisstéttir.  Tilgangur frumvarpsins er að samræma ákvæði fjórtán laga sem nú gilda um heilbrigðisstéttir og fella í eina rammalöggjöf.  Nánari ákvæði um einstakar stéttir verði sett með reglugerðum.

   

Iðnaðarráðuneytið

Engin fyrirhuguð þingmál á 137. löggjafarþingi.

    

Menntamálaráðuneytið

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um náms- og starfsráðgjafa. Með frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að fela viðurkenndum háskólum sem bjóða upp á nám í náms- og starfsráðgjöf að gefa út leyfisbréf til náms- og starfsráðgjafa.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna.  Með frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að falla frá kröfum laganna um ábyrgðarmenn.

   

Samgönguráðuneytið

Engin fyrirhuguð þingmál á 137. löggjafarþingi.

    

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða nr. 116/2006.  Um er að ræða upptöku á nýjum flokki veiða, svokölluðum strandveiðum, þar sem handfæraveiðar verða frjálsar innan ákveðins ramma og að uppfylltum settum skilyrðum.  Jafnframt eru í frumvarpinu ákvæði um svokallaðar frístundaveiðar og heimildir til að leyfa smáveiðar í fræðsluskyni, auk ákvæða er varða skiptingu veiða úr stofnum djúpkarfa og gullkarfa.

Frumvarp til laga um hvali, sem kemur í stað eldri laga um hvalveiðar nr. 26/1949 og miðast við breyttar þjóðfélagsaðstæður og þá þróun sem orðið hefur á stjórnsýslurétti.

Frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna endurskoðunar á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn og innleiðingar á nýrri matvælalöggjöf Evrópusambandsins.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum nr. 99/1993.  Frumvarpið er flutt vegna framlengingar á búvörusamningum um mjólkur- og sauðfjárframleiðslu, sem gerð var 18. apríl síðastliðinn.

   

Umhverfisráðuneytið

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um erfðabreyttar lífverur,  nr. 18/1996.  Markmið frumvarpsins er að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins  2001/18/EB í íslensk lög, um vísvitandi sleppingar erfðabreyttra lífvera í náttúruna.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 52/1988 um eiturefni og hættuleg efni. Markmið frumvarpsins er að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 842/2006/EB í lög um tilteknar flúoreraðar gróðurhúsalofttegundir en tilskipunin hefur verið felld inn í EES samninginn. Frumvarpið fjallar um kröfur sem gerðar eru til aðila sem annast uppsetningu, viðhald og aðra þjónustu vegna kælikerfa, loftkælinga og slökkvikerfa sem innihalda gróðurhúsalofttegundir.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Markmið frumvarpsins er að innleiða í lög reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins 1013/2006/EB um flutning úrgangs en tilskipunin hefur verið felld inn í EES samninginn.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 55/2003 meðhöndlun úrgangs og lögum nr. 162/2002 um úrvinnslugjald. Markmið frumvarpsins er að starfsemi Endurvinnslunnar hf. verði breytt til samræmis við kröfu um framleiðendaábyrgð, sbr. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 52/1989 um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota drykkjavöruumbúða.  Við þessa breytinu munu lög nr. 52/1989 falla út gildi.  Setja þarf ákvæði um  einnota drykkjavöruumbúðir inn í lög nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og jafnframt að fella niður ákvæði um einnota drykkjavöruumbúðir í lögum um úrvinnslugjald nr. 162/2002.

Tillaga til þingsályktunar um náttúruverndaráætlun 2009 – 2013.  Umhverfisráðherra ber skv. lögum nr. 44/1999 um náttúruvernd að vinna náttúruverndaráætlun á fimm ára fresti og leggja hana fyrir Alþingi.  

   

Utanríkisráðuneytið

Frumvarp til laga um eftirlit með hlutum, tækni og þjónustu sem hafa hernaðarlega þýðingu. Með frumvarpinu eru m.a. uppfærðar gildandi reglur (lög nr. 4/1988 um útflutningsleyfi) um eftirlit með útflutningi hluta, sem hægt er að nota í hernaði eða til hryðjuverka, í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar.

Tillaga til þingsályktunar um aðildarviðræður við Evrópusambandið.

   

    

Viðskiptaráðuneytið

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög.

Á grundvelli EES-reglna þarf að breyta ákvæðum framangreindra laga til að einfalda reglur við samruna og skiptingu félaga. Frumvarpið var lagt fyrir á síðasta þingi, en ekki afgreitt.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum hegðunar- og hæfisreglum í ljósi fjármálaáfallsins.

Frumvarp til laga um breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki.

Í frumvarpinu felst heildarendurskoðun á þeim kafla laganna sem fjallar um sparisjóði.

Frumvarp til laga um breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki.

Í frumvarpinu er lagt til að bætt verði við ákvæði í bráðabirgðaákvæði með lögum um fjármálafyrirtæki, er varða heimilda skilanefnda og slitastjórna til útgreiðslu.

Frumvarp til laga um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög.

Tilgangur frumvarpsins er að auka gagnsæi varðandi eignarhald, auka jafnrétti kynja í stjórnum og meðal framkvæmdastjóra.

Frumvarp til laga um vátryggingarstarfsemi.

Um er að ræða heildarendurskoðun á lögum um vátryggingarstarfsemi. Með frumvarpinu eru gerðar tillögur að innleiðingu tilskipunar um endurtryggingu í íslenskan rétt.  Frumvarpið var lagt fyrir á síðasta þingi, en ekki afgreitt.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 45/1997, um vörumerki, með síðari breytingum.

Í frumvarpinu er lagt til að tæming réttinda (réttindaþurrð) miðist við Evrópska efnahagssvæðið, í stað alþjóðlegrar tæmingar.  Hliðsjón er höfð af nýlegum dómi EFTA-dómstólsins.  Frumvarpið var lagt fyrir á síðasta þingi, en ekki afgreitt.

Frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna innleiðingar á tilskipun 2005/29/EB um óréttmæta viðskiptahætti.

Frumvarp þessi felur í sér innleiðingu á ákvæði tilskipunar um óréttmæta viðskiptahætti.  Frumvarpið var lagt fram á síðasta þingi, en var ekki afgreitt.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar