Góð byrjun á fjórða Austurland Freeride Festival

Nokkur fjöldi gesta hefur gert sig heimakominn á Eskifirði í tilefni af því að Austurland Freeride Festival 2024 hófst í dag en þetta er í fjórða skiptið sem hátíðin sú er haldin.

Austurland Freeride Festival er hátíð ætluð fjallaskíða- og snjóbrettafólki en í þeim hópi eru margir sem kjósa ekkert fremur en fara óhefðbundnar leiðir upp og niður brekkur, fjöll og firnindi. Þeim mörgum leiðist jafnframt lítið að skemmta sér og sínum vel frameftir kvöldum sem útskýrir óvenju drjúga skemmtidagskrá á Eskifirði fram á sunnudaginn kemur.

Hátíðinni hefur vaxið fiskur um hrygg ár frá ári með sívaxandi fjölda þátttakenda og gesta en verulegur fjöldi áhugafólks um þessa íþrótt setur ekkert fyrir sig að þvælast heimshorna á milli til að taka þátt í slíkum hátíðum. Aðspurður um aðsókn nú í byrjun fjórðu hátíðarinnar segir Sævar Guðjónsson, ferðaþjónustubóndi og skipuleggjandi hátíðarinnar frá upphafi, nokkurn fjölda gesta þegar mættan á staðinn en telur reyndar að miður góð veðurspá hafi eitthvað dregið úr áhuga margra þannig að færri þátttakendur eru þennan fyrsta dag hátíðarinnar miðað við stöðuna fyrir ári.

„Veðurspáin hefur ekki alveg verið með okkur að þessu sinni. Við vorum þrettán talsins að skíða í dag og það reyndar í mjög flottu veðri framan af en töluverð snjóblinda varð svo raunin þegar líða tók á daginn. Í dag fórum við yfir Markúsarskarð og þaðan yfir Geldingarskarð yfir í Sanddal og allt gekk þetta framar vonum þennan fyrsta dag. Það eru færri en fyrir ári en við bara rétt að byrja veisluna.“

Alla næstu daga eru spennandi ferðir í boði og sömuleiðis bíður skemmtun og frekari gleði þeirra sem niður koma að lokum hvern dag. Hin þekkta hljómsveit FM Belfast mun halda dampinum uppi og henda í alvöru ball í Valhöll á laugardagskvöldið auk annarra skemmtikrafta eins og DJ Toni Tjokko sem gæta þess að enginn fari of snemma í bælið. Þá eru og aðilar að kynna vörur sínar á meðan hátíðinni stendur. Fjallakofinn sýnir bretta- og skíðabúnað og brugghús Beljanda frá Breiðdalsvík kynnir bjóra sína og harðfisk svo fátt sé nefnt. Dagskrá hátíðarinnar má sjá hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar