Gott í gogginn: Kerfilpestó, fíflakaffi og rabarbaraís að hætti Frú Lúlú

Austurglugginn hefur lagt það í vana sinn að birta ómótstæðilegar mataruppskriftir fyrir helgar til að auka við innblástur austfirskra kokka. Að þessu sinni deilir Hákon Guðröðarson á Frú Lúlú í Neskaupstað með okkur brakandi ferskum sumaruppskriftum. Þar er ýmislegt nýnæmi á ferð.

rhubarb.jpg

 

,,Sumarið er svo sannarlega tíminn í mínum augum, því þá spretta upp hinar ýmsu munaðarvörur allt um kring. Ég er nefnilega mjög heillaður af því að nota það sem íslensk náttúra hefur upp á að bjóða; ferskara og ódýrara gerist það ekki og ekki veitir af á tímum sem þessum. Í bakgarðinum hér á Frú LúLú eru þrjár plöntur sem ég notfæri mér mikið í eldhúsinu. Fyrst ber að nefna rabarbarann sem ég nota mikið af í bakstur og sultu, einnig er það kerfillinn sem ég nota í salöt og pestó og svo að lokum fíflar sem ég, ótrúlegt en satt, brugga kaffi úr. Ætla ég að deila með ykkur einni uppskrift fyrir hvert af framangreindum hráefnum."   

---

Kerfilspestó  Ca 150 g kerfilblöð, skoluð / Ca 100 g rucola salat / 4-5 hvítlauksgeirarhnefafylli af ristuðum furuhnetum / Maldon salt / Extra Virgin ólífuolía af bestu sort  

 

Ég tek fram að persónulega er ég mikill ástríðumaður í eldamennsku og notast því lítið við uppskriftir en treysti frekar á bragðlaukana og ráðlegg ég að gera það sama með þessa uppskrift. Allt hráefnið sett saman í matvinnsluvél og smakkað til. Best með nýbökuðu brauði.     

---

 Fíflakaffi  

 

Hver hefði trúað því að rótin af þessu illgresi sem vex í öllum görðum væri afbragðs hráefni í kaffi? Allavega ekki mér fyrr en ég fékk það smakkað. Bragðið er einhvers staðar mitt á milli kaffis og svarts tes og er drykkurinn koffínlaus svo það hentar einkar vel á kvöldin fyrir þá sem ekki þola kaffi á þeim tíma.    

 

Stingið upp rótina og skolið vel undir rennandi vatni með hreinum busta. Skerið í teninga og stráið í ofnskúffu. Setjið í ofn á 180°C þar til kominn er kaffibrúnn litur á teningana. Kælið og malið smátt eins og kaffi.  Duftið er notað alveg eins og kaffi nema í eilítið minni skömmtum þar sem það er bragðsterkara en venjulegt kaffi. Geymist vel í loftþéttum umbúðum. Uppáhalds drykkurinn minn úr fíflarót er latté með hálfri teskeið af hunangi.

---    

 

 

Rabarbaraís  

 

500 g rabarbari, snyrtur og smátt skorinn / 200 g sykur (aukið eða minnkið eftir þroska rabarbarans) / 200 ml rjómi.  

 

Þessi ís er líklegast sá einfaldasti sem hugsast getur þar sem í honum er einungis þrjú hráefni. Svo er hann ljómandi bragðgóður og alveg einstaklega fallegur á litinn.   Setjið rabarbarann og sykurinn saman í pott, hrærið vel saman og setjið á lágan hita á hellunni. Látið malla í ca 30 mínútur og hrærið stöku sinnum til að ekki brenni við. Takið af hitanum þegar hræran er orðin mjúk og mestur vökvinn hefur gufað upp Látið kólna í ískáp.  Þegar blandan hefur kólnað er hún sett í matvinnsluvél þar til hún verður mjúk sósa. Setjið í skál og hrærið saman við rjómanum. Ef þið búið svo vel að eiga ísvél er hrærunni hellt í hana og leiðbeiningum framleiðanda fylgt. Ef ekki er til ísvél á heimilinu er hræran set í frystibox og þaðan í frystinn og hrært á ca 15 mínútna fresti þar til hún nær þéttleika.     

 

---------------------

 

Verði ykkur að góðu

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.