Helgin á Austurlandi: Fantasíur fyrir flautur í Tónlistarmiðstöðinni

Sóley Þrastardóttir, flautuleikari og Kristján Karl Bragason, píanóleikari, halda saman tónleikana Fantasíu í Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði á sunnudag. Stórt glímumót fer fram á Reyðarfirði á morgun.

„Kona Kristjáns er líka flautuleikari og við kynntumst þegar við vorum saman í Listaháskólanum. Hann hefur því langa reynslu af að spila með flautuleikurunum. Að auki hefur hann spilað flest þessara laga áður. Þess vegna heyrði ég í honum þegar mig vantaði píanóleikara,“ segir Sóley sem dagsdaglega starfar sem skólastjóri Tónlistarskólans á Egilstöðum.

Á efnisskrá tónleikanna eru verk fyrir þverflautu og píanó eftir frönsk tónskáls frá 19. og 20. öld. „Mig hefur í mörg ár langað til að flytja efnisskrá með franskri flaututónlist. Þetta er skemmtileg tónlist, fjölbreytt, blæbrigðarík, litrík, skemmtileg og lögin allt frá að vera dramatísk yfir í að vera draumkennd og fljótandi,“ bætir hún við.

Tónleikarnir, sem hefjast klukkan 16:00 á sunnudag, hafa yfirskriftina Fantasía. Tvö verkanna á efniskránni, hið fyrsta og síðasta draga nafn sitt af fantasíum. Lokalagið heitir „Fantaisie brillante sur 'Carmen'“ eftir François Borne en það byggir á stefjum úr óperunni Carmen eftir Frakkann Georges Bizet.

Á Tehúsinu á Egilsstöðum verður írsk tónlist um helgina þar sem þjóðhátíðardagur Íra, sem kenndur er við heilagan Patrek, er á sunnudag. Reynir Hólm Gunnarsson og Öystein Gjerde spila slagara frá 21:30 í kvöld en annað kvöld er það hljómsveitin Hátt upp til hlíða frá 21:00.

Hreindýraveiðimenn ætla einnig að safnast saman á Tehúsinu í dag klukkan fimm þegar dregið verður um veiðileyfi ársins. Hægt er að fylgjast með útdrættinum í beinu streymi. Í ár er aðeins heimilt að veiða 800 dýr, samanborið við 901 í fyrra og 1021 árið á undan.

Á Reyðarfirði fer fram grunnskólamót í glímu og síðan höfðingjamót. Byrjað er á grunnskólamótinu klukkan 11 þar sem börn frá 5. – 10 . bekk glíma. Eftir það hefst Höfðingjamótið þar sem keppendur eru 30 ára og eldri.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar