Helgin á Austurlandi: Fantasíur fyrir flautur í Tónlistarmiðstöðinni
Sóley Þrastardóttir, flautuleikari og Kristján Karl Bragason, píanóleikari, halda saman tónleikana Fantasíu í Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði á sunnudag. Stórt glímumót fer fram á Reyðarfirði á morgun.„Kona Kristjáns er líka flautuleikari og við kynntumst þegar við vorum saman í Listaháskólanum. Hann hefur því langa reynslu af að spila með flautuleikurunum. Að auki hefur hann spilað flest þessara laga áður. Þess vegna heyrði ég í honum þegar mig vantaði píanóleikara,“ segir Sóley sem dagsdaglega starfar sem skólastjóri Tónlistarskólans á Egilstöðum.
Á efnisskrá tónleikanna eru verk fyrir þverflautu og píanó eftir frönsk tónskáls frá 19. og 20. öld. „Mig hefur í mörg ár langað til að flytja efnisskrá með franskri flaututónlist. Þetta er skemmtileg tónlist, fjölbreytt, blæbrigðarík, litrík, skemmtileg og lögin allt frá að vera dramatísk yfir í að vera draumkennd og fljótandi,“ bætir hún við.
Tónleikarnir, sem hefjast klukkan 16:00 á sunnudag, hafa yfirskriftina Fantasía. Tvö verkanna á efniskránni, hið fyrsta og síðasta draga nafn sitt af fantasíum. Lokalagið heitir „Fantaisie brillante sur 'Carmen'“ eftir François Borne en það byggir á stefjum úr óperunni Carmen eftir Frakkann Georges Bizet.
Á Tehúsinu á Egilsstöðum verður írsk tónlist um helgina þar sem þjóðhátíðardagur Íra, sem kenndur er við heilagan Patrek, er á sunnudag. Reynir Hólm Gunnarsson og Öystein Gjerde spila slagara frá 21:30 í kvöld en annað kvöld er það hljómsveitin Hátt upp til hlíða frá 21:00.
Hreindýraveiðimenn ætla einnig að safnast saman á Tehúsinu í dag klukkan fimm þegar dregið verður um veiðileyfi ársins. Hægt er að fylgjast með útdrættinum í beinu streymi. Í ár er aðeins heimilt að veiða 800 dýr, samanborið við 901 í fyrra og 1021 árið á undan.
Á Reyðarfirði fer fram grunnskólamót í glímu og síðan höfðingjamót. Byrjað er á grunnskólamótinu klukkan 11 þar sem börn frá 5. – 10 . bekk glíma. Eftir það hefst Höfðingjamótið þar sem keppendur eru 30 ára og eldri.