Helgin: Sýningu Rikke Luther lýkur í Skaftfelli

Haustsýningu menningarmiðstöðvarinnar Skaftfells á verkum eftir Rikke Luther lýkur um helgina. Á Borgarfirði verður vetrarveisla en borðtennisnámskeið í Brúarási.

Sýning Rikke, „On Moving Ground“ byggir á rannsóknum hennar á pólitískum, samfélagslegum og umhverfislegum tengslum milli jarðefnavinnslu, nútímans, jarðvegseyðingar og hnattrænna breytinga.

Verk hennar kanna áhrif sandnáms, kolefnisfrekrar framleiðslu steinsteypu og áhrif hækkandi hitastigs, á stöðugleika jarðarinnar sem við búum á. On Moving Ground býður upp á innsýn í fjölbreyttar rannsóknaraðferðir og listræna framleiðslu listamannsins, allt frá kvikmyndum til stórra teikninga til safnefnis, vísindagagna, texta og ljósmyndunar.

Við þær hefur hún meðal annars safnað gögnum á Grænlandi, í Brasilíu og Japan. Rikke var gestalistamaður í Skaftfelli í september og stundaði þá vettvangsrannsóknir fyrir nýdoktorsrannsókn sína og kvikmynd sem ætlað er að komi út árið 2024. Sýningin er opin 17-22 og lýkur á sunnudag.

Á neðri hæðinni í Skaftfelli stendur yfir sýning á tíu vatnslitamyndum þýska listamannsins Bernd Koberling. Koberling á að baki langan og glæsilegan feril en hann er sannkallaður Loðmundarfjarðarvinur hafandi komið þangað reglulega til sumardvalar frá árinu 1977. Myndirnar voru allar málaðar haustið 1998, sama ár og Skaftfell var stofnað. Í þeim má finna vísun í landslag og gróðurfar Loðmundarfjarðar í litum sem á svipmikinn hátt kalla fram haustið.

Þá býður Skaftfell upp á keramiksmiðju í Stúdíó Heima að Austurvegi 15 um helgina. Á morgun á hádegi hefst skrímslasmiðja fyrir 5-10 ára þar sem skrímsli verða mótuð úr steinleir og síðan máluð áður en þau verða brennd. Á sunnudag er smiðja fyrir 11-15 ára þar sem leikið verður með ljós og skugga við gerð kertastjaka. Leiðbeinandi er Rikke Høgenhof.

Í Herðubreið klukkan 17:00 á morgun verður sýnd heimildamyndin „Rekaviður – Hinn strandaði skógur Íslands“ þar sem íslenskur rekaviður verður skoðaður frá ýmsum sjónarhornum. Eftir sýninguna sitja fyrir svörum þau Dawn Elise Mooney, fornleifafræðingur frá háskólanum í Stavanger í Noregi og Þröstur Eysteinsson, Skógræktarstjóri.

Utan Seyðisfjarðar

Á Borgarfirði er efnt til vetrarveislu annað kvöld, meðal annars til að fagna því að bundið slitlag er komið veginn til staðarins alla leið frá Egilsstöðum. Já Sæll og Álfheimar standa saman að veislunni sem hefst á hlaðborði Hjálmars Baldurssonar, síðan verða óskalagatónleikar með Magna, Óskari Péturs og Valmar & The Hafthors og loks dansleikur með Næturvaktinni

Ungmennafélagið Þristur stendur fyrir námskeiði í borðtennis fyrir byrjendur og lengra komna í Brúarási á morgun. Þjálfari verður Bjarni Bjarnason, fyrrverandi landsliðsþjálfari.

Þá verður barsvar á Café Söxu á Stöðvarfirði annað kvöld þar sem verðlaun verða veitt fyrir bæði besta skorið og besta liðsheitið.

Rithöfundalestin á ferð um fjórðunginn og á Egilsstöðum býður Rauði krossinn í kaffi með flóttafólki sem flutt er í Eiða.

Mynd: Skaftfell


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.